Tónlist

Kemur ekki fram á tónlistarhátíð vegna hatursorðræðu í garð samkynhneigðra

Árni Sæberg skrifar
DaBaby á tónleikunum sem hann viðhafði hatursorðræðu á.
DaBaby á tónleikunum sem hann viðhafði hatursorðræðu á. Jason Koerner/Getty

Rapparinn DaBaby kemur ekki fram á lokakvöldi tónlistarhátíðarinnar Lollapalooza sem fram fer í Chicago í kvöld. Ástæðan er hatursorðræða sem hann viðhafði á tónleikum í síðustu viku.

Til stóð að DaBaby, einn vinsælasti rappari síðasta árs, myndi sjá um lokaatriðið á tónlistarhátíðinni Lollapalooza. Skipuleggjendur hátíðarinnar tilkynntu í dag að ekkert yrði af tónleikum hans og að rapparinn Young Thug kæmi fram í hans stað.

„Lollapalooza var stofnuð á fjölbreytni, inngildingu, virðingu og ást. Með þetta í huga mun DaBaby ekki koma fram í Grant Park í kvöld,“ sagði í Twitterfærslu skipuleggjenda hátíðarinnar.

Á tónleikum í Miami í síðustu viku gerði DaBaby lítið úr þeim sem þjást af HIV og samkynhneigðum.

Hann bað áhorfendur að kveikja á ljósum í símum sínum og setja þá á loft. Alla áhorfendur nema samkynhneigða menn og þá sem eru með sjúkdóminn HIV.

Þá sagði hann einnig að sjúkdómurinn „dræpi þig á tveimur til þremur vikum,“ en það er auðvitað ekki satt.

Rapparinn hefur þegar verið gert að sæta afleiðingum orða sinna en fyrr í vikunni var honum sparkað frá tónleikum á vegum stjórnmálaflokksins Working Families Party.

Þá hefur fataframleiðandinn Boohoo sagt upp samstarfssamninginn við DaBaby.

Fjölmargir tónlistarmenn hafa fordæmt ummæli DaBabys, þar á meðal Elton John.

„Við verðum að brjóta niður fordóma gegn HIV en ekki dreifa þeim. Sem tónlistarfólk er það okkar hlutverk að sameina fólk,“ sagði Elton á Instagram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×