Erlent

Hyggjast skima 11 milljónir íbúa Wuhan í kjölfar sjö smita

Heimir Már Pétursson skrifar
Borgin Wuhan er nú alræmd, eftir að fyrstu tilfelli SARS-CoV-2 greindust þar árið 2019.
Borgin Wuhan er nú alræmd, eftir að fyrstu tilfelli SARS-CoV-2 greindust þar árið 2019. Getty

Yfirvöld í Wuhan í Kína ætla að skima alla íbúa borgarinnar fyrir kórónuveirunni eftir að sjö manns greindust þar. BBC fréttastofan segir það vera fyrstu tilfellin sem greinst hafi í Wuhan í rúmt ár en veiran greindist fyrst þar í heiminum seint á árinu 2019.

Kínverjar takast nú á við mestu útbreiðslu veirunnar í marga mánuði en um þrjú hundruð manns hafa greinst í fimmtán héruðum landsins á undanförnum tíu dögum. Stjórnvöld hafa gripið til útgöngubanns víða og tekið upp skipulagðar skimanir á fólki. 

Fólk er að greinast með Delta afbrigði veirunnar og segja stjórnvöld veiruna dreifa sér víða vegna þess að nú sé ferðamannatímabil innan Kína. 

Nýja „bylgjan“ hófst í Nanjing en 9,2 milljónir íbúa borgarinnar hafa allir verið skimaðir að minnsta kosti þrisvar sinnum og þá hafa þeir sætt hörðum sóttvarnaaðgerðum.

Nú er hins vegar unnið að því að rekja smit sem hefur verið rakið til leikhúss í Zhangjiajie og verið að reyna að hafa uppi á um fimm þúsund manns sem sóttu sýningar þar. Talið er að um sé að ræða einstaklinga sem búa víðsvegar um Kína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×