Warholm rústaði eigin heimsmeti þegar hann kom í mark á 45,94 sekúndum í úrslitum í 400 metra grindahlaupi á Ólympíuleikunum í Tókýó í nótt. Gamla metið hans frá því í byrjun júlí var 46,70 sekúndur og hann bætti því heimsmetið um 76 hundraðshluta. Warholm er sá fyrsti sem hleypur 400 metra grindahlaup á undir 46 sekúndum.
Jackson segir að heimsmet Warholms sé eitt það merkasta sem sett hefur verið í frjálsíþróttasögunni.
„Þegar þú ræðir um heimsmet er þetta í flokki með tíma Usains Bolt í 100 metra hlaupi, 9,58 sekúndur, og meti FloJo [Florence Griffith-Joyner] í 100 metra hlaupi, 10,49 sekúndur,“ sagði Jackson við BBC.
„Þetta er eitt af þessum ótrúlegu heimsmetum og ég á von á því að það standi svo lengi sem ég lifi. Maður stendur á öndinni. Vá, ég er enn að jafna mig,“ bætti Jackson við.
Warholm trúði varla hvað hann hafði gert eftir hlaupið í nótt. „Stundum voru þjálfararnir mínir að segja að þetta væri möguleiki með fullkomnu hlaupi. Það var samt erfitt að ímynda sér það því þetta er svo stór þröskuldur og þetta er eitthvað sem maður hefur ekki leyft sér að dreyma um,“ sagði Norðmaðurinn.
„Ég vissi samt að þetta væri möguleiki með fullkomnu hlaupi á Ólympíuleikunum. Ég trúi þessu samt ekki ennþá. Þetta er stærsta stund lífsins.“
Rai Benjamin frá Bandaríkjunum varð annar í 400 metra grindahlaupinu í nótt og Brasilíumaðurinn Alison dos Santos þriðji.
Hægt er að horfa á hlaupið á vef RÚV í gegnum hlekkinn hér fyrir neðan.