Pawel Fajdek, landi Nowickis, þótti líklegastur til árangurs fyrir keppni dagsins enda fjórfaldur heimsmeistari í greininni. Líkt og á fyrri Ólympíuleikum hefur honum hins vegar ekki tekist að kasta eins vel og á HM. Hann hlaut þó brons með kasti upp á 81,53 metra.
Sigur Nowicki var aldrei í hættu þar sem enginn komst nálægt hans kasti upp á 82,52 metra og hlaut hann því gull.
Norðmaðurinn Eivind Henriksen kom hins vegar á óvart þar sem hann þótti ekki líklegur til mikilla afreka í keppninni. Hann hafði ekki náð kasti yfir 80 metra á sínum ferli en í fjórgang bætti hann sinn besta árangur og þar með Noregsmetið.
Lengsta kast hans, upp á 81,53 metra, skaut honum upp fyrir Fajdek og tryggði honum silfurverðlaun.
„Þetta er gjörsamlega galið. Ég er nánast orðinn raddlaus og hef ekki mörg orð um þetta. Þetta var minn dagur í dag, jafnvel þó það hafi aðeins dugað til silfurs. Ég bætti mig um þrjá metra,“ sagði Henriksen eftir keppnina í dag.
Henriksen táraðist þá í viðtali þegar hann var spurður út í þjálfara sinn, Einar Brynemo, sem lést fyrir þremur árum síðan.
„Ég held að þetta hafi hreyft við honum. Hann var þannig manneskja. Ég vildi að ég hefði hann hér með mér,“ sagði Henriksen sem var þá spurður hversu mikið Brynemo ætti í árangri dagsins.
„Mjög mikið. Hann bjó í Kragerö og keyrði í þrjá tíma til að þjálfa okkur vikulega. Hann hjálpaði til og greindi myndbönd af köstunum. Hann hefur gefið mér virkilega mikið og gerði þetta nánast í sjálfboðaliðastarfi.“