Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu kemur fram að mikið álag hafi verið á sóttvararhús að undanförnu. Í síðustu viku sagði Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsa, að fjöldi óbólusettra ferðamanna sem tækju út sína sóttkví í slíku húsi í stað þess að greiða fyrir hóteldvöl, væri vandamál.
Ljóst er að reglugerðarbreytingin er liður í því að létta á þessu vandamáli, með því að nýta húsin að mestum hluta aðeins fyrir þá sem þurfa á einangrun að halda. Breytingin tekur gildi næsta laugardag, 7. ágúst.
Samkvæmt reglugerðarbreytingunni getur sóttvarnalæknir þó í undantekningartilfellum ákveðið að einstaklingur í sóttkví skuli dveljast á sóttvarnahúsi, til að mynda ef viðkomandi hefur ekki tök á að einangra sig í húsnæði á eigin vegum, eða ef sýnt þykir að hann muni ekki hlíta reglum um sóttkví.
Óbólusettir ferðamenn sem koma hingað til lands, og þurfa reglum samkvæmt að fara í sóttkví, munu nú þurfa að leita til hótela og annarra gististaða sem uppfylla kröfur Ferðamálastofu um að fá að taka á móti gestum í sóttkví, og greiða sjálfir fyrir dvölina.