Skoðun

Auðsöfnun fárra og fjársvelt almannaþjónusta

Jóhann Páll Jóhannsson skrifar

Ríkasta 1 prósent landsmanna á samtals 902 milljarða í eigin fé samkvæmt skattframtalsgögnum ríkisskattstjóra.

Þar af eiga 240 heimili – ríkasta 0,1 prósent skattgreiðenda – 293 milljarða.

Raunverulegar eignir fólksins eru reyndar miklu meiri að umfangi, enda eru hlutabréf talin á nafnvirði í gögnum ríkisskattstjóra og fasteignir á fasteignamatsverði.

Í hópnum eru til dæmis eigendur stórútgerðarfyrirtækja sem njóta þeirra forréttinda að fá úthlutaðan fiskveiðikvóta langt undir markaðsvirði. Arðgreiðslur til fyrirtækjanna síðastliðinn áratug eru langt umfram það sem þjóðin hefur fengið í arð af auðlindinni í formi veiðigjalds.

Eigið fé ríkasta 0,1 prósentsins jókst um 10,8 milljarða í fyrra og hefur alls vaxið um 131 milljarð frá 2010. Flestir í hópnum lifa á fjármagnstekjum og borga þannig miklu lægra hlutfall tekna sinna í skatt heldur en almennt launafólk greiðir af sínum tekjum.

Þetta eru engin náttúrulögmál heldur afleiðing af pólitískum ákvörðunum fólksins sem stjórnar Íslandi, flokkanna sem viðhalda gamaldags skattkerfi, standa vörð um óbreytt gjafakvótafyrirkomulag í sjávarútvegi og lögðu áherslu á það í miðjum heimsfaraldri að lækka enn frekar skatta á þau ríku, veikja skattrannsóknir og selja eignarhlut ríkisins í banka á undirverði.

Sama fólkið lætur eins og það séu ekki til peningar til að reka vel fjármagnað heilbrigðiskerfi, starfrækja þjóðarsjúkrahús þar sem sjúklingar hírast ekki á göngum, salernum og í geymslum og bráðamóttöku sem er ekki alltaf einu rútuslysi frá því að fara á hliðina.

Sama fólkið lætur eins og það sé allt á réttri leið þegar það þarf ekki nema þrjár Covid-innlagnir til að setja Landspítalann á hættustig, þegar fjöldi sjúkraplássa á Íslandi miðað við höfðatölu er undir meðaltali OECD-ríkja og þegar hundruð barna þurfa að bíða í meira en ár eftir nauðsynlegri geðheilbrigðisþjónustu.

Við vitum betur. Það er nóg til og það er hægt að forgangsraða öðruvísi – í þágu sterkrar grunnþjónustu og velferðar.

En það kallar ekki aðeins á skipulagsbreytingar og betri ráðstöfun fjármuna heldur einnig aukin útgjöld, meðal annars varanleg rekstrarútgjöld sem skynsamlegast er að mæta með aukinni tekjuöflun.

Það væri óráð að mæta útgjaldaaukningunni með hærri sköttum á almennt launafólk, t.d. hjúkrunarfræðingana, kennarana og afgreiðslufólkið í verslunum sem hafa þurft að færa fórnir í heimsfaraldrinum.

Við skulum miklu frekar sameinast um sanngjörn auðlindagjöld og hærri skatta á allra hæstu eignir og tekjur.

Þannig tökum við heildarhagsmuni samfélagsins fram yfir sérhagsmuni hinna fáu og fjársterku.

Um þetta verður kosið í alþingiskosningum 25. september.

Höfundur er þingframbjóðandi Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×