Erlent

Boraði fyrstu holuna á Mars

Samúel Karl Ólason skrifar
Hér má sjá fyrstu holu Perseverance á Mars af 35.
Hér má sjá fyrstu holu Perseverance á Mars af 35. NASA/JPL-Caltech

Vélmennið Perseverance boraði í morgun sína fyrstu holu á Mars. Úr holunni tók vélmennið sýni sem vísindamenn vonast til að bera ummerki fornra lífvera.

Samkvæmt grein sem yfirmaður verkefnisins birti á vef NASA í gær stendur til að taka alls um 35 sambærileg sýni á Mars á næstu árum.

Sýni þessi verða rannsökuð um borð í Perseverance, með þeim tækjum sem þar eru í boði, en vísindamenn vonast til þess að senda annað geimfar til að sækja sýnin og flytja þau aftur til jarðarinnar á næstu árum svo hægt verði að rannsaka þau enn betur.

Perseverance lenti í Jezero-gígnum á Mars í febrúar en hann var fullur af vatni á árum áður. Því þykir mögulegt að ummerki örvera finnist í jarðveginum, ef þær hafa á einhverjum tímapunkti fundist á Mars.

Nánari upplýsingar um Perseverance, tækjabúnað vélmennisins og tilraunir má finna hér að neðan.

Vísindamenn notuðu vélmennið í vor til að vinna súrefni úr andrúmslofti Mars í fyrsta sinn. Þeirri könnun var ætla að kanna fýsileika þess að vinna súrefni á staðnum sem er forsenda fyrir því að hægt verði að senda menn til Mars í framtíðinni.


Perseverance var ekki sent eitt til Mars en því fylgdi lítil þyrla sem kallast Ingenuity.

Ingenuity er fyrsta farartækið sem flogið hefur undir eigin afli á öðrum hnetti. Andrúmsloft plánetunnar rauðu er mun þynnra en andrúmsloft jarðarinnar. Þéttleiki þess er í raun bara eitt prósent af því sem við eru vön hér á jörðinni en á móti kemur að þyngdaraflið á mars er einungis þriðjungur af þyngdarafli jarðarinnar.

Upprunalega átti þyrlan einungis að fljúga fimm sinnum en sá áfangi náðist fljótt og er enn verið að fljúga henni.

Þessi mynd var tekin af þyrlunni Ingenuity á flugi yfir yfirborð Mars.NASA/JPL-Caltech

Nú síðast var hún látin fljúga 380 metra á rúmum tveimur mínútum á stað þar sem þyrlan á að nota sem flugvöll til frekari flugferða sem ætlað er að nota til að aðstoða Perseverance. Það var ellefta flugferð Ingenuity.

Hægt er að nota Ingenuity til að taka myndir af umhverfi Perseverance. Þær myndir eru svo notaðar til að finna bestu leiðina fyrir Perseverance og bestu staðina til að taka sýni.


Tengdar fréttir

SpaceX skýtur þeim á braut um jörðu og Netflix fangar ævintýrið á filmu

SpaceX ætlar að skjóta hópi almennra borgara á braut um jörðu í næsta mánuði og verður geimskotinu og aðdraganda þess gerð skil í heimildaþáttum Netflix. Forsvarsmenn streymisveitunnar segja þetta í fyrsta sinn sem fyrirtækið sýni heimildaþætti „nærri því í rauntíma“.

Geimskoti Starliner frestað þrisvar sinnum á einni viku

Geimskoti geimfars Boeing, Starliner, hefur verið frestað enn eina ferðina og það þrisvar sinnum á einni viku. Geimskotinu var frestað í gær þegar ákveðinn galli kom upp og stóð til að gera aðra tilraun í dag. Í nótt var einnig hætt við hana og Starliner fjarlægt af skotpalli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×