Fótbolti

Leið eins og Messi og táraðist við brottförina

Valur Páll Eiríksson skrifar
Grealish spilaði sinn fyrsta leik fyrir City er liðið tapaði 1-0 fyrir Leicester í leik um samfélagsskjöldinn um helgina.
Grealish spilaði sinn fyrsta leik fyrir City er liðið tapaði 1-0 fyrir Leicester í leik um samfélagsskjöldinn um helgina. Matt McNulty - Manchester City/Manchester City FC via Getty Images

Jack Grealish var formlega kynntur til leiks hjá Englandsmeisturum Manchester City í dag og sat fyrir svörum á blaðamannafundi. Grealish yfirgaf uppeldisfélag sitt Aston Villa við skiptin og segir hafa verið erfitt að yfirgefa heimahagana.

Grealish ólst upp í Birmingham-borg og gekk í raðir Aston Villa sex ára gamall. Í dag er hann 25 ára gamall og færði sig um set fyrir breska metfjárhæð, 100 milljónir punda, til Manchester City í vikunni.

Grealish sat fyrir svörum á blaðamannafundi í dag og segir brottför sína frá Aston Villa vera líka þeirri hjá Lionel Messi frá Barcelona.

„Allir hafa séð hvernig Messi var á síðasta blaðamannafundi sínum. Það er nákvæmlega þannig sem mér leið sjálfum.“ sagði Grealish í dag. „Áður en ég yfirgaf hótelið talaði ég við liðsfélagana og starfsliðið og táraðist sjálfur.“

Messi gat ekki haldið aftur af tárum þegar hann hélt blaðamannafund í höfuðstöðvum Barcelona í gær en hann hefur yfirgefið félagið eftir 21 ár í Katalóníu.

Grealish sagði á fundinum að ákvörðunin að yfirgefa Aston Vill hafi verið ein sú erfiðasta sem hann hefur tekið á ævinni. Það hafi hins vegar verið kominn tími til að breyta til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×