Kvikmyndinni var leikstýrt af Hannesi Þór Halldórssyni, leikstjóra og landsliðsmarkverði í knattspyrnu. Auðunn Blöndal, Egill Einarsson og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir fara þá öll með stór hlutverk í myndinni, sem fjallar um leynilögreglumanninn Bússa, sem á í innri átökum við sjálfan sig á sama tíma og hann berst við harðsvíraða glæpamenn í Reykjavík.
Hópurinn sem stendur að baki myndinni er sem stendur staddur í Sviss og var viðstaddur frumsýninguna. Þeir Auðunn og Egill hafa báðir skrásett ferðina á Instagram-reikningum sínum, en hér að neðan má sjá það sem borið hefur hæst á ferðalagi þeirra.
Í ferðasögu Auðuns má til að mynda sjá troðfullan, 2.500 manna bíósalinn áður en myndin er frumsýnd. Í lokin má einnig sjá leikstjórann Hannes, glaðan á svip að frumsýningu lokinni.
„Ég er bara að jafna mig. Ég er alveg búinn að vera með kökkinn í hálsinum í tvo klukkutíma. Ég er að reyna að halda honum niðri,“ heyrist Hannes segja í lok myndbandsins.
Að trailer úr Audda og Sveppa fyrir 10 árum síðan hafi orðið að bíómynd og fengið standing O í Locarno er það sturlaðasta sem ég hef lent í á ferlinum 😅🥰
— Auðunn Blöndal (@Auddib) August 10, 2021
„Að fólk hafi staðið upp og klappað er bara það ruglaðasta sem ég veit,“ segir Auðunn þá, en hann fer með hlutverk Bússa í myndinni.
Hér að neðan má sjá stiklu fyrir myndina, sem verður frumsýnd hér á landi von bráðar.