Innlent

Flestir sem smitast hafa í hópi bólu­settra hafi fengið Jans­sen

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Rúmlega 255 þúsund manns hafa verið fullbólusettir hér á landi. 
Rúmlega 255 þúsund manns hafa verið fullbólusettir hér á landi.  Vísir/vilhelm

Flestir þeirra sem höfðu verið bólusettir en greindust engu að síður með kórónuveiruna í þeirri bylgju faraldursins sem nú stendur yfir höfðu fengið bóluefni Janssen.

Fréttastofa RÚV greinir frá þessu og vísar til gagna sem fréttastofan kallaði eftir frá Almannavörnum. Þar kemur fram að flestir þeirra sem smitast hafa í þessari bylgju og voru bólusettir, eða 637, hafi fengið bóluefni Janssen. Þá hafi 420 hinna smitaða fengið Pfizer, 270 hafi fengið AstraZeneca og 59 fengið Moderna.

Í þessu samhengi er vert að nefna að langstærstur hluti þeirra sem fullbólusettir hafa verið hér á landi hafa fengið bóluefni Pfizer, eða um 127 þúsund manns, samkvæmt tölfræði á bóluefnavef Almannavarna og Landlæknis. Rúmlega 55 þúsund hafa þá fengið AstraZeneca, 53 þúsund Janssen og rúm 20 þúsund Moderna.

Sé miðað við þessar tölur, og uppgefnar tölur smitaðra sem þegar voru bólusettir sést að hlutfall smitaðra sem fengið hafa bóluefni er hæst meðal Janssen-þega, eða um 1,2 prósent. Næst hæst er hlutfallið hjá þeim sem fengu AstraZeneca, rétt tæpt hálft prósent. Hlutfallið er þá um 0,33 prósent hjá bólusettum með Pfizer og 0,3 hjá bólusettum með Moderna.

Í umfjöllun RÚV kemur þá fram að flestir sem smitast hafa í þessari fjórðu Bylgju séu á aldrinum 20 til 39 ára, en ungt fólk var uppistaða þess hóps sem fékk bóluefni Janssen hér á landi. Nú stendur yfir örvunarbólusetning þeirra sem fengu Janssen fyrr á árinu, sem var aðeins gefið í einum skammti, og er þá bólusett með Moderna eða Pfizer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×