Innlent

Þrettán á gjörgæslu en mannað fyrir tíu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Nýting á bráðarýmum á Landspítala er venjulega 95 til 105 prósent en á helst ekki að fara yfir 85 prósent.
Nýting á bráðarýmum á Landspítala er venjulega 95 til 105 prósent en á helst ekki að fara yfir 85 prósent. Landspítali/Þorkell Þorkelsson

Klukkan 13 í gær lágu þrettán einstaklingar á gjörgæsludeildum Landspítala, þrátt fyrir að tíu rúm væru „opin“ og mönnun eftir því. Alls voru 592 rúm opin á spítalanum, sem þýðir að mannað var til að mæta þörfum 592 sjúklinga.

Þetta kemur fram í svörum Landspítalans við fyrirspurn fréttastofu.

Líkt og fram hefur komið í umræðunni að undanförnu er nýting á bráðalegudeildum spítalans almennt á bilinu 95 til 105 prósent en víðast hvar er miðað við að hún sé ekki meiri en 85 prósent.

Hvað varðar heildafjölda opinna rúma gefur talan 592 ekki heildarmyndina þar sem „rúm er ekki það sama og rúm“, eins og segir í svari spítalans. Sem dæmi má nefna að á barnadeild eru fjórtán rúm opin en inniliggjandi sjúklingar ellefu. Þar má þó ekki leggja inn fullorðið fólk til að nýta rúmin, né börn sem þurfa þjónustu vökudeildar, jafnvel þótt þar séu fjórtán rúm opin en sjúklingarnir fimmtán.

Sama gildi um aðra hópa; öldunardeildin henti til dæmis ekki 30 ára fótbrotnum einstakling.

Á Landspítalanum er nú mannað fyrir 425 bráðarúmum, það er að segja á lyflækningardeildum, skurðdeildum og sérgreinadeildum. Klukkan 13 í gær voru þau fullnýtt.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×