Í aðsendum greinum á Vísi frá þessum þingmönnum Samfylkingarinnar kemur fram að ekki gangi lengur að ríkisstjórnin skelli skollaeyrum við hjálparköllum stjórnenda og starfsfólks sjúkrahússins.
Það er mikið í húfi: Sóttvarnalæknir hefur gefið það út að það velti nær alfarið á því hvort neyðarkall berist frá spítalanum hvort hann leggi til hertar sóttvarnaraðgerðir innanlands. Starfsemin er komin að þolmörkum.
Logi formaður skrifar: „Nú verður að hafa hraðar hendur ef ekki á illa að fara. Það verður strax að veita fjármagni til spítalans til þess að fjölga rýmum og leggja allt í sölurnar til að fjölga starfsfólki, t.d. með miklu hærri álagsgreiðslum og bæta starfsaðstæður.“
![](https://www.visir.is/i/C7026A8EA8A02B39909EC0167B0069FDD27343C098F528E1823D81028D3AE895_390x0.jpg)
Stöðugildum hafi ekki verið fjölgað
Landspítalinn hefur gefið það út að helsti vandi stofnunarinnar á þessari stundu sé mönnun, en ekki endilega húsnæði.
Helga Vala, sem er formaður velferðarnefndar Alþingis, skrifar: „Það þarf að laða að starfsfólk og það verður ekki gert með því að skammast út í stjórnendur spítalans eða starfsfólk sem segir frá ástandinu eins og ráðherrar hafa leyft sér undanfarna daga og misseri heldur með auknum fjárveitingum og ákvörðunum um að ráðast í nauðsynlegar aðgerðir.“
Ríkisstjórnin hefur sagt að fjárútlát til sjúkrahúsa hafi aukist á umliðnum árum, en Helga Vala segir að því fé hafi fyrst og fremst verið ráðstafað til byggingar nýs meðferðarkjarna. Ekki til að fjölga stöðugildum - það hafi ríkisstjórnin trassað.
Jóhann Páll Jóhannsson frambjóðandi Samfylkingarinnar segir þá í færslu að sjúkrarýmum hafi fækkað jafnt og þétt undanfarin ár miðað við mannfjölda, að hjúkrunarrýmum hafi ekki fjölgað í takt við mannfjölda og loks að gjörgæslurými hér á landi séu hlutfallslega með því lægsta sem gerist á Vesturlöndum.
Fjármálaráðherra neiti að láta spítalann fá pening
Gunnar Smári Egilsson oddviti Sósíalistaflokksins í Reykjavík norður skrifaði grein á Vísi í gær þar sem kvað við svipaðan tón: „Hættið þessari vitleysu og látið Landspítalann fá pening“ var yfirskrift greinarinnar.
Þar segir Gunnar Smári sveltistefnu ríkisstjórnarinnar hafa stórskaðað gjörgæslu spítalans, sem sé einmitt það sem nú þurfi að standast.
„En fjármálaráðherrann og flokkur hans neitar að láta Landspítalann fá fé til að mæta álagi vegna kórónafaraldursins. Og rökin eru að spítalinn sé ekki nógu vel rekin. Ráðherrann gerði hins vegar engar slíkar kröfur þegar að jós fé yfir fjármagns- og fyrirtækjaeiendur,“ skrifar Gunnar Smári.