Talibanar hafa átt í átökum við stjórnvöld í tuttugu ár en frá því herlið NATO og Bandaríkjanna var kallað heim fyrr á árinu hefur sókn þeirra verið afar hröð. Brynja Huld Óskarsdóttir, öryggis- og varnarmálafræðingur sem starfaði fyrir NATO í Afganistan, segir að mögulega hafi afganski herinn og ríkisstjórnin ekki verið í stakk búin til að missa þennan stuðning.
„Það eru fjórir dagar síðan bandaríska leyniþjónustan sagði í það minnsta 30 daga þar til Talibanar myndu umkringja Kabúl og það tæki þá 90 daga að ná tökum á borginni. Eins og við höfum öll séð, sem höfum fylgst með fréttum undanfarna daga, þá tók þetta innan við 10 daga. Það eru bara 10 dagar frá því þeir tóku fyrstu héraðshöfuðborgina,“ segir Brynja.

Nú þurfi landsmenn að fylgja reglum og túlkun Talibana á kóraninum, sem sé sú öfgafyllsta í heimi. Þetta þýði til dæmis afar skert réttindi kvenna. Brynja segir ringulreið nú ríkja í landinu.
Ófremdarástand á flugvellinum
„Staðan í Kabúl í dag er sú að það er örtröð á Hamid Kharzai-flugvellinum. Það var búið að setja upp loftbrú í gær til að koma starfsfólki vestrænna sendiráða úr landi og til stóð að flytja líka Afgani sem hafa verið að vinna fyrir vestrænt herlið eða sendiráð. Sú loftbrú féll niður í nótt. Það eru einhver herflug að koma og fara eftir að lokað var fyrir almenn flug í gær. En það sem af er degi er meira að segja óöruggt fyrir herflugin að koma og fara því það er svo mikil ringulreið á flugvellinum í Afganistan.“
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hélt neyðarfund vegna stöðunnar í dag og breska þingið hefur verið kallað saman svo fátt eitt sé nefnt. En ef til vill eru þessi viðbrögð alþjóðasamfélagsins of sein, segir Brynja. Ólíklegt sé að vesturlönd ákveði að fara aftur inn með herlið í landið til að berjast við Talibana.
Kabul Airport runway today. No words needed. pic.twitter.com/8SfzEOprUZ
— Shiv Aroor (@ShivAroor) August 16, 2021