Innlent

Minnast litháísks knatt­spyrnu­manns sem lést á Húsa­vík

Snorri Másson skrifar
Dziugas Petrauskas var fæddur árið 1994 og hafði náð nokkrum frama í knattspyrnu í heimalandi sínu.
Dziugas Petrauskas var fæddur árið 1994 og hafði náð nokkrum frama í knattspyrnu í heimalandi sínu. Sportas.it

Minningarstund var haldin í Húsavíkurkirkju í síðustu viku um litháíska knattspyrnumanninn Dziugas Petrauskas. Knattspyrnumaðurinn fannst látinn í grennd við Húsavík aðfaranótt mánudagsins 9. ágúst.

Í frétt DV um málið segir að talið sé að Petrauskas hafi svipt sig lífi og heimildir Vísis benda til hins sama. Í litháískum íþróttamiðlum segir að málið sé til rannsóknar hjá lögreglu.

Petrauskas var 27 ára gamall og hafði flutt til Íslands fyrr á árinu. Hann hafði fengið starf hjá kísilverinu PCC á Bakka og starfað þar frá komu sinni. Í heimalandi sínu hafði hann verið öflugur knattspyrnumaður og meðal annars átt leiki með U18 og U19-landsliðum. Þá hafði hann spilað í efstu deild með liði sem síðar varð gjaldþrota.

Knattspyrnumannsins er minnst í litháískum fjölmiðlum og er þar sagður hafa verið framúrskarandi og sterkur einstaklingur. Þar minnast hans þjálfarar og gamlir liðsfélagar, og um leið hefur verið hrundið af stað söfnun fyrir fjölskyldu hans. 


Vert er að taka fram að í þessari grein er fjallað um sjálfsvígshugsanir. Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið. Nánari upplýsingar hér. Síminn hjá Pieta-samtökunum er jafnframt opinn allan sólarhringinn og er 552-2218 og vefsíðan pieta.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×