Íslenski boltinn

Leikmaður KR smitaðist

Sindri Sverrisson skrifar
KR vann góðan sigur á mánudagskvöld en þarf væntanlega að bíða nokkuð eftir næsta leik.
KR vann góðan sigur á mánudagskvöld en þarf væntanlega að bíða nokkuð eftir næsta leik. vísir/hulda margrét

Leikmaður úr byrjunarliði KR sem mætti HK á mánudagskvöld, í Pepsi Max-deild karla í fótbolta, hefur greinst með kórónuveirusmit. Því gæti allur leikmannahópur KR þurft að fara í sóttkví.

Þetta kemur fram á vef 433.is þar sem haft er eftir Rúnari Kristinssyni, þjálfara KR, að frí hafi verið gefið frá æfingu í dag þó að enginn liðsfélaga leikmannsins hafi enn verið skikkaður í sóttkví. Leikmenn bíði heima hjá sér eftir frekari fréttum.

Útlit er fyrir að fresta verði leik KR við ÍA á Akranesi sem fram átti að fara á sunnudaginn. KR-ingar eiga svo að mæta Leikni á heimavelli 29. ágúst, samkvæmt leikjadagskrá KSÍ.

KR vann dýrmætan 1-0 sigur gegn HK, þrátt fyrir að missa Arnþór Inga Kristinsson af velli með rautt spjald snemma leiks, og er með 29 stig í 5. sæti Pepsi Max-deildarinnar, fjórum stigum frá 2. sæti. Liðið er því enn í baráttu um Evrópusæti sem KR rétt missti af á síðasta ári þegar mótið var flautað af fyrr en ella vegna faraldursins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×