Sport

Vasaklútamyndband þegar Kara Saunders fékk loksins að faðma stelpuna sína

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Scotti komin aftur í fangið á móður sinni, CrossFit konunni Köru Saunders.
Scotti komin aftur í fangið á móður sinni, CrossFit konunni Köru Saunders. Instagram/@mattsaund0

CrossFit konan Kara Saunders getur loksins verið hún sjálf á ný og með fjölskyldu sinni eftir að hafa fengið í gegnum hálfgert helvíti síðustu vikur.

Martröð Köru á heimsleikunum í CrossFit tók vonandi enda í gær þegar Kara hitti fjölskyldu sína eftir að hafa verið í burtu frá þeim í heilan mánuð.

Kara þurfti að leggja af stað frá Ástralíu til Bandaríkjanna meira en tveimur vikum fyrir heimsleikanna til að vinna á móti miklum tímamismun.

Eftir allan undirbúninginn þar sem Kara gerði sér væntingar um að berjast um að komast á verðlaunapall varð þetta stutt gaman.

Kara varð nefnilega að hætta keppni eftir fyrsta dag heimsleikanna vegna afleiðinga þess að hafa fengið kórónuveiruna á ferðalagi sínu frá Ástralíu tveimur vikum fyrir leikana.

Föstudaginn 30. júlí fór Kara að reyna að finna ferð heim til Ástralíu og komst ekki strax heim. Hún komst loksins heim 4. ágúst eftir langt ferðalag en þá tók við fjórtán daga sóttkví á hóteli.

Anníe Mist Þórisdóttir keppti líka á heimsleikunum þar sem hún komst á verðlaunapall.

Heimsleikunum lauk sunnudaginn 1. ágúst. Anníe flaug heim á mánudeginum og var komin heim á þriðjudagsmorgninum. Freyja Mist hennar var því komin í fangið á móður sinni 3. ágúst, heilum fimmtán dögum á undan því að Kara fékk að faðma Scottie sína.

Vísir hefur verið að fylgjast með biðinni hjá Köru þar sem hún hefur þurft að dúsa ein á hótelherbergi í tvær vikur sem skylda fyrir alla sem lenda í Ástralíu.

Í gær slapp Kara loksins út og fékk að faðma tveggja ára dóttur sína Scotti á ný eftir allan þennan tíma.

Matt, eiginmaður hennar, og Scotti tóku á móti henni á flugvellinum og þau hafa nú sett saman dramatískt myndband af þessum degi. Það má sjá þetta vasaklútamyndband hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×