Lífið

„200 manna takmörkunin þýðir bara tap“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Páll Óskar í garðpartýi Bylgjunnar á Menningarnótt.
Páll Óskar í garðpartýi Bylgjunnar á Menningarnótt. Vísir/Vilhelm

Páll Óskar Hjálmtýsson hefur ákveðið að fresta afmælistónleikum sínum í enn eitt skiptið. Um er að ræða fimmtugsafmælistónleika en Páll Oskar stefnir á að halda tónleikana í mars 2022 þegar hann verður nýorðinn 52 ára.

Söngvarinn segir í færslu á Facebook að núverandi fjöldatakmarkanir, sem hljóða upp á að 200 manns megi koma samn, neyði hann til að fresta þrennum tónleikum sem fara áttu fram í Háskólabíó 9., 10. og 11. september. Þeir verði 24.,25. og 26. mars 2022 í staðinn.

Frestað í fjórða sinn

Tónleikarnir áttu upphaflega að fara fram í mars 2020 en var frestað til haustsins. Svo til mars 2021 og síðan aftur til haustsins. Nú hefur enn verið frestað og stefnt á að halda tónleikana tveimur árum á eftir áætlun.

„Ég mun bara syngja úr mér hjartað fyrir þessa tónleikagesti, nýorðinn 52 ára í eigin fimmtugsafmæli og mun bara gera stólpagrín að því,“ segir Páll Óskar.

Öllu alvarlegri sé sú staðreynd að 200 manna samkomubann sé einfaldlega eitthvað sem Páll og hans kollegar geti ekki lifað með.

Löngu komið að þolmörkum

„500 manna takmörk myndu muna miklu. Bransinn minn er löngu kominn að þolmörkum og sömuleiðis finn ég mikið hungur frá tónleikagestum og dansi-ballgestum,“ segir Páll Óskar.

„Það hlýtur að vera hægt að slaka á samkomutakmörkunum á sitjandi viðburðum, krefjast grímuskyldu og bólusetningaskírteina og eða hreinlega skima tónleika- og leikhúsgesti, jafnvel ballgesti á dansiböllum. Ég er viss að bæði viðburðahaldarar sem og gestir eru tilbúnir til að leggja ýmislegt á sig til að viðburðurinn megi gerast án þess að enda í tapi. 200 manna takmörkunin þýðir bara tap fyrir flesta viðburði.“

Þeir sem kjósi að fá miðana sína endurgreidda geta sent email á info (hjá) tix.is, en þeir sem vilja halda sínum sætum þurfa ekki að gera neitt.

Í minnisblaði Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis um framtíðarsýn í kórónuveirufaraldrinum kom fram að hann teldi að áfram ætti að vera 200 manna samkomubann næstu misserin. Hann opnaði þó á að stærri viðburðir gætu farið fram við sérstakar aðstæður, til dæmis að gestir á viðburðum framvísuðu neikvæðu prófi.


Tengdar fréttir

Nýtt minnis­blað: Svona sér Þór­ólfur fyrir sér fram­tíðina

Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir telur ó­lík­legt að hægt verði að af­létta tak­mörkunum innan­lands á meðan far­aldurinn geisar í heiminum. Þetta segir hann í minnis­blaði sínu til Svan­dísar Svavars­dóttur heil­brigðis­ráð­herra um fram­tíðar­fyrir­komu­lag sótt­varna á Ís­landi vegna Co­vid-19.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.