Eins og flestir þekkja núorðið hérlendis gerir OnlyFans fólki kleift að halda úti lokuðu vefsvæði með nektarmyndum og -myndböndum af sér, sem viðskiptavinir greiða síðan fyrir aðgang að. Nokkrir Íslendingar hafa auðgast nokkuð af því að halda úti OnlyFans-síðu, eða í öllu falli verið færir um að sjá sér farborða með tekjunum.
Nú kann að stefna í óefni fyrir þann hóp, enda virðast OnlyFans ætla að herða reglurnar. Nokkuð loðið er hvort alvara sé í áformunum um að „banna klám“ – enda taka talsmennirnir skýrt fram að nekt í mynd og myndbandsformi sé áfram leyfð.
Nektin þarf þó núna að vera í samræmi við sérstök notendaviðmið síðunnar (e. Acceptable Use Policy.) Breytingarnar taka ekki gildi fyrr en í október, þannig að ólíklegt er að skýrist fyrr en þá hvaða þýðingu þær hafa fyrir notendur síðunnar.
OnlyFans segist vera að gera þetta til þess að tryggja lífvænleika fyrirtækisins til lengri tíma – sem erlendir viðskiptamiðlar skilja á þann veg að fjárfestum hafi einfaldlega ekki litist á allt klámið. Í því sambandi hlýtur þó að vera óhjákvæmilegt að líta til þess að það er einmitt klámið sem hefur skotið fyrirtækinu upp á stjörnuhimininn – og inn í daglegt líf fleiri en 100 milljóna notenda. Það er metið á um milljarð Bandaríkjadala.