Nuno segist þó ekki sjá eftir liðsvalinu, og að ákvörðunin hafi verið teki til þess að gefa yngri og óreyndari leikmönnum tækifæri á að sanna sig.
„Það þykir engum gaman að tapa,“ sagði Nuno eftir leikinn í kvöld. „Það þykir engum gaman að spila illa. En þetta er fótbolti, það eru hæðir og lægðir og leikmennirnir verða að snúa þessu við.“
Þrátt fyrir að liðið sem Nuno valdi fyrir leikinn hafi ekki átt eitt einasta skot á markið segir hann að hann hafi ekki vanmetið andstæðinginn, og að hann myndi velja sama lið aftur ef hann gæti.
„Ákvörðunin var tekin til að gefa leikmönnum mínútur, til að fá mínútur undir beltið og bæta formið. Auðvitað taka þessir hlutir tíma,“ sagði Nuno. „Ég myndi velja þetta lið aftur. Við þurfum á öllum okkar leikmönnum að halda.“
Tottenham þarf að snúa genginu við þegar liðin mætast aftur að viku liðinni í London, en Nuno vildi ekki gefa upp hvort hann muni velja svipað lið fyrir þann leik. Liðið spilar gegn hans gömlu lærisveinum í Wolves í ensku úrvalsdeildinni um helgina, og hann segir að athyglin sé fyrst og fremst á þeim leik.