Sport

Elísabet Rut komst í úrslit á HM U20 í Kenía

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elísabet Rut Rúnarsdóttir hefur komist í úrslit á bæði HM og EM á árinu.
Elísabet Rut Rúnarsdóttir hefur komist í úrslit á bæði HM og EM á árinu. FRÍ

Elísabet Rut Rúnarsdóttir tryggði sér í morgun sæti í úrslitum í sleggjukasti á heimsmeistaramóti tuttugu ára og yngri sem fer fram þessa dagana.

Elísabet Rut kastaði sleggjunni lengst 59,78 metra í undankeppninni og var hún níunda inn í úrslitin af þeim tólf sem komust þangað. Elísabet var skráð inn með fjórða besta árangurinn.

Elísabet gerði ógilt í fyrsta kasti en kastaði svo 59,49 metra í annarri tilraun sinni. Hún kastaði síðan aðeins lengra í síðustu tilraun sem var hennar lengsta kast í undankeppninni.

Elísabet tryggði sér líka sæti í úrslitum á EM U20 í júlí og þar hafnaði hún í sjöunda sæti.

Elísabet er búin að kasta 64,39 metra lengst í ár sem er jafnframt Íslandsmetið í greininni.

Úrslitin í sleggjukasti kvenna fara fram á morgun. Þá keppir líka Kristján Viggó Sigfinnsson í hástökki.

Þar sem það eru aðeins fimmtán keppendur í hástökki var ákveðið að hafa enga undankeppni og keppir því Kristján til úrslita á laugardag klukkan 12.55 að íslenskum tíma.

Elísabet hefur keppni í úrslitunum sínum fimmtán mínútum á eftir Kristjáni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×