Erlent

Bretar gefa leyfi fyrir mót­efna­lyfi gegn Co­vid sem á að létta álag á spítölum

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Evrópusambandið hefur keypt 55 þúsund skammta af lyfinu til prófana.
Evrópusambandið hefur keypt 55 þúsund skammta af lyfinu til prófana. getty/Paul Hennessy/SOPA Images

Lyfja­stofnun Bret­lands hefur veitt leyfi fyrir notkun mót­efna­lyfsins Rona­pre­ve í með­ferð við Co­vid-19. Lyfið er það fyrsta sinnar tegundar sem fær leyfi í Evrópu en Japanir sam­þykktu notkun þess fyrir rúmum mánuði. Menn binda vonir við að lyfið geti létt álag á breskum spítölum.

Sé það gefið nógu snemma eftir að fólk fer að finna fyrir ein­kennum Co­vid-19 getur það dregið úr líkum á spítala­inn­lögn um allt að 70 prósent.

Lyfið er það sama og Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, fékk gefið þegar hann veiktist af Co­vid-19 í fyrra.

Fram­leiðandi lyfsins er banda­ríska líf­tækni­fyrir­tækið Regeneron en það er blanda úr tveimur gerðum mót­efnis sem festast á prótein kórónu­veirunnar og eiga að hjálpa líkamanum við að hindra veiruna í að dreifa sér. Þannig á lyfið að geta að­stoðað við að hreinsa líkamann fyrr af veirunni en ella.

Prófanir bresku lyfja­stofnunarinnar á mót­efna­lyfinu, Rona­pre­ve, sýndu fram á góða virkni þess.

Sam­kvæmt frétt The Guar­dian um mót­efna­lyfið er talið að það geti gagnast þeim vel sem eru við­kvæmastir fyrir veirunni og eiga í mestri hættu á að þurfa á spítala­inn­lögn að halda. Þá er sér­stak­lega horft til þeirra sem nota ó­næmis­bæld lyf og hafa fyrir vikið ekki tekið nægi­lega vel við bólu­efnum.

Sajid Javid, heil­brigðis­ráð­herra Bret­lands, segir þetta mikil gleði­tíðindi og vonar að hægt verði að taka lyfið í notkun á opin­berum spítölum sem fyrst.

Evrópusambandið skoðar lyfið

Evrópusambandið keypti 55 þúsund skammta af lyfinu í júní og er með það í prófunum, samkvæmt frétt Reuters.

Ó­ljóst er hvort ís­lensk yfir­völd séu með lyfið til skoðunar og hvort þau hyggist þá fylgja Evrópu­sam­bandinu að málinu, eins og gert var við kaup á bólu­efnum, eða fara sjálf í rann­sóknir og kaup á mót­efna­lyfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×