Lífið

Hljóp mara­þon í fyrsta skipti fyrir for­eldra sem missa fóstur

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Vilhjálmur og kærasta hans Elín Edda í morgun. Vilhjálmur hljóp heilt maraþon í fyrsta skipti.
Vilhjálmur og kærasta hans Elín Edda í morgun. Vilhjálmur hljóp heilt maraþon í fyrsta skipti. facebook/Vilhjálmur Þór Svansson

Vil­hjálmur Þór Svans­son hljóp mara­þon í fyrsta skipti í dag til styrktar sam­tökunum Gleym mér ei. Hann hefur þegar safnað um 610 þúsund krónum fyrir fé­lagið en vonast til að safna enn meiru þó hlaupinu sé lokið.

Vil­hjálmur ætlaði sér að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu sem haldið er ár­lega og átti að fara fram í morgun en því var frestað vegna sam­komu­tak­markana. Margir hlupu sitt eigið hlaup í dag þrátt fyrir þetta og á­kvað hlaupa­hópurinn HHHC að ganga skrefinu lengra og setja upp sömu hlaupa­leið og Reykjavíkurmaraþon hefur gert, leigðu búnað til tíma­töku og voru með drykkjar­stöðvar á leiðinni.

Þar gekk Vil­hjálmi vel; hafði ein­sett sér að hlaupa fyrsta mara­þonið á undir þremur klukku­stundum sem hafðist en hann hljóp á 2:58:38 í morgun.

„Ég á­kvað að hlaupa fyrir þetta fé­lag, Gleym mér ei, sem hafði hjálpað mér og minni kærustu eftir að við misstum fóstur í vor. Þetta er alveg ó­trú­legt fé­lag sem hefur hjálpað mörgum og mig langaði að safna pening fyrir það svo það gæti haldið starfi sínu á­fram eftir erfitt síðasta ár vegna heims­far­aldursins,“ segir Vil­hjálmur.

Vilhjálmur og Elín Edda kynntust samtökunum eftir að hafa misst fóstur í vor.aðsend

Gefa foreldrum fallega minningarkassa

„Þegar við misstum fóstur fengum við svona minningar­kassa frá Gleym mér ei, sem við erum alveg ó­trú­lega þakk­lát fyrir. Þar var fót­spor fóstursins, minningar­bók og bangsi og alls konar sem hefur hjálpað okkur mjög í ferlinu,“ segir hann.

Slíkir minningar­kassar eru ekki ó­keypis, kosta reyndar 25 þúsund krónur hver fyrir styrktar­fé­lagið en for­eldrar fá þá frítt. „Mig langaði að safna fyrir þau svo þau geti haldið þessu á­fram og gefið fleiri for­eldrum, sem munu því miður lenda í þessari stöðu, svona kassa.“

Hér má sjá minningarkassa frá Gleym mér ei.Gleym mér ei

Gleym mér ei gaf Land­spítalanum einnig kæli­vöggu ný­lega en slíkar vöggur gefa for­eldrum auka tíma með börnunum.

Vil­hjálmur hafði sett sér það mark­mið að safna 500 þúsund krónum fyrir fé­lagið. Það hafðist og gott betur, því hann var búinn að safna um 610 þúsundum þegar hann at­hugaði síðast í dag.

Söfnunin er þó enn opin næstu vikur og vonar Vil­hjálmur að fleiri vilji styrkja fé­lagið. „Ég mun bara halda ó­trauður á­fram að safna fyrir Gleym mér ei á meðan söfnunin er opin fram í septem­ber.“

Hér er hægt að styrkja Gleym mér ei í gegn um Vil­hjálm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.