Héraðið Veracruz hefur orðið hvað verst úti í fellibylnum en allir átta sem vitað er til að hafa farist bjuggu í héraðinu. Sex af þeim átta voru úr sömu fjölskyldunni samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum í héraðinu. Fellibylurinn kom að landi snemma í gærmorgun og voru vindar svo sterkir að tré féllu. Götur hafa víða breyst í árfarvegi.
Eitthvað dró þó úr krafti fellibylsins þegar hann færðist inn með landinu og er hann nú flokkaður sem hitabeltisstormur. Vindar byljarins mældust mest um 56 m/s þegar þeir nálguðust strendur Mexíkó.
Fellibylurinn Grace er ekki sá eini sem herjar á Norður-Ameríku um þessar mundir en íbúar austurstrandar Bandaríkjanna búa sig nú undir að fellibylurinn Henri nái landi í New York ríki og syðri hluta Nýja Englands.
Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í hluta New York ríkis en vindhraði fellibyljarins mælist nú um 33 m/s og búist er við miklu úrhelli.