Erlent

Ákvörðunin um að yfirgefa Afganistan byggð á „hálfvitalegum“ pólitískum frasa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Blair fór ófögrum orðum um ákvörðunina um að yfirgefa Afganistan.
Blair fór ófögrum orðum um ákvörðunina um að yfirgefa Afganistan. epa/Vickie Flores

Ákvörðun Bandaríkjamanna um að yfirgefa Afganistan var röng og drifin af „hálfvitalegum“ pólitískum frasa um að binda enda á svokölluð „eilífðarstríð“ (e. forever wars). Þetta segir Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands. 

Blair sagði í samtali við breska fjölmiðla að þátttaka Breta í aðgerðum í Afganistan hefði ekki verið til einskis, né fórnir breskra hermanna. Raunverulegur árangur hefði náðst á 20 árum, ekki síst að tryggja að heil kynslóð komst til vits og ára utan skugga talíbana.

Forsætisráðherrann fyrrverandi sagði engan vafa á að ný stjórn talíbana myndi veita Al Kaída skjól. Þá hefði Ríki íslams verið að ná fótfestu í Afganistan.

„Ef þú horfir til heimsins alls þá sérðu að þeir sem fagna þessari þróun eru aðeins þeir sem eru óvinveittir vestrænum hagsmunum,“ sagði hann.

Blair sagði Breta hafa siðferðilega skyldu til að vera áfram í Afganistan þar til allir sem þyrftu að komast úr landinu hefðu verið fluttir á brott. Það ætti ekki að gerast með semingi, heldur í anda mannúðar og af ábyrgðartilfinningu.

Hann sagði að mistök hefðu verið gerð en að viðbrögðin við þeim mistökum, að fara frá landinu, þýddu að sá árangur sem hefði náðst síðustu 20 ár myndi glatast. Nú fögnuðu allir jíhadistar.

Stjórnvöld í Rússlandi, Kína og Íran myndu sjá sér leik á borði.

Peter Galbraith, fyrrverandi sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna í málefnum Afganistan, sagði að öll þau ríki sem komið hefðu að aðgerðum í Afganistan bæru ábyrgð á því hvernig nú væri komið.

Það sem hefði verið „hálfvitaleg“ hefði verið að reyna að mynda eina miðstjórn í ríki sem væri jafn menningar- og landfræðilega fjölbreytt og Afganistan. Og ekki síður að mynda bandalag með stjórnvaldi sem væri jafn spillt og raun hefði borið vitni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×