Í nýrri skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa um banaslys á Haukadalsmelum sumarið 2019 bendir nefndin á að óvenjumikið hafi verið um alvarleg flugslys hjá atvinnuflugmönnum í einkaflugi síðustu ár.
Frá 2014 hefur nefndin rannsakað um tuttugu alvarleg flugatvik og flugslys á ári. Af þessum tuttugu atvikum eru að meðaltali um tvö til þrjú mál á ári, eða 10 til 15 prósent málanna, þar sem atvinnumenn í einkaflugi eiga í hlut - og mannlegur þáttur en ekki bilun kemur við sögu. Þetta þykir hátt hlutfall í ljósi þess að aðeins um 4 til 5,8 prósent alls flugs er flokkað sem einkaflug.
„Þetta eru alvarleg atvik og flugslys, þau eru margskonar. Það getur verið eldsneytisleysi, of þungar flugvélar, ekki nægilega vel hugað að undirbúningi flugs, notkun á gátlistum og svo framvegis. Þegar flugmenn eru komnir sjálfir í einkaflugvél þá er töluvert meira undir að þeir passi sjálfir upp á þessi atriði,“ segir Ragnar Guðmundsson, rannsakandi á flugsviði hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa.
Þetta séu oft alvarlegustu málin. Banaslys í flugi síðustu ár, þar á meðal slysið á Haukadalsmelum sem og slys við Múlakot, Kapelluhraun og í Barkárdal falla til að mynda undir þennan flokk.
„Ég held það sé fullt tilefni til að hafa áhyggjur og ræða þetta. Það er ástæðan fyrir því að nefndin vildi koma þessu á framfæri. Við teljum komið tilefni til að flugiðnaðurinn á Íslandi taki þetta og ræði þetta,“ segir Ragnar.