Hún hafði þá setið í bæjarstjórn síðastliðin þrjú ár fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Rannsókn ráðgjafafyrirtækis leiddi í ljós að embættismaður hafi beitt Sif einelti og að sveitarfélagið brugðist henni með því að aðhafast ekki fyrr í málinu.
Sif segir í samtali við Vísi að hún sé ánægð með að málinu sé loks lokið.
„Þetta tók tíma, ég veit svo sem að stjórnsýslan tekur tíma en í svona málum þá má þetta ganga hratt og örugglega fyrir sig. Ég er ótrúlega þakklát fyrir að þetta sé búið og hlakka til að fara að hugsa um eitthvað annað.“
Eineltið átti sér stað á meðan hún var framkvæmdastjóri Byggðasamlags Vestfjarða um málefni fatlaðs fólks (BsVest). Sif sagði í júní að henni þætti stjórnsýsla bæjarins hafa brugðist sér í málinu og að hún hafi því ekki treyst sér til að starfa áfram sem bæjarfulltrúi.
Á þeim tímapunkti hafði Ísafjarðarbær ekki beðist formlega afsökunar á eineltinu sem Sif varð fyrir eða hvernig málið hafði þróast.
Vill ekki greina frá efni samkomulagsins
Sif vill ekki staðfesta hvort formleg afsökunarbeiðni eða breytingar á meðferð slíkra mála hjá bænum hafi verið hluti af samkomulaginu þar sem hún hafi verið beðin um að halda trúnað um efni þess. Hún hefur krafið bæjarfélagið um bætur vegna þess hvernig það tók á kvörtun hennar um einelti sem hún segist hafa orðið fyrir af hálfu starfsmanns Ísafjarðarbæjar.
„Eins og ber að skilja er engin sigurvegari í þessu máli og hafa síðustu mánuðir verið mér og fjölskyldu minni mjög erfiðir,“ segir Sif í færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hún greinir frá niðurstöðunni.
„Ég óska þess að málið verði víti til varnaðar fyrir komandi ár ef eineltismál komi upp innan Ísafjarðarbæjar.“
Hún sé ánægð með að tekið hafi verið á málinu þó læra megi af mistökunum og margt sé hægt að gera betur.