Erlent

Biden ver ákvörðunina um að yfirgefa Afganistan

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Biden sagði að það hefði ekki komið til greina að framlengja „stríðið endalausa“.
Biden sagði að það hefði ekki komið til greina að framlengja „stríðið endalausa“. AP/Evan Vucci

Joe Biden Bandaríkjaforseti varði þá ákvörðun að kalla alla hermenn heim frá Afganistan í ræðu sem hann hélt í gærkvöldi.

Hann sagði ekki hafa komið til greina að halda áfram stríðsrekstrinum í landinu en brotthvarf Bandaríkjamanna leiddi til þess að talíbanar tóku landið yfir á nokkrum dögum. 

Biden lofaði þó aðgerðir hersins á síðustu dögum stríðsins, þegar tókst að flytja um 120 þúsund almenna borgara frá Afganistan sem óttuðust ofsóknir af hálfu talíbana. 

Bandaríkjamenn réðust inn í landið fyrir 20 árum í kjölfar árásanna 11. september 2001 og var markmiðið að steypa talíbönum, sem höfðu skotið skjólshúsi yfir Osama Bin Laden, leiðtoga Al Kaída. 

Tuttugu árum síðar, eftir lengsta stríð í sögu Bandaríkjanna, eru talíbanar nú komnir aftur til valda og sennilega öflugri en nokkru sinni fyrr. 

Biden hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir það hvernig staðið var að brottflutningnum en forsetinn segir að ekki hafi komið til greina að framlengja „stríðið endalausa“ og að ekki hafi heldur komið til greina að seinka brotthvarfinu en tímasetning þess hafði verið ákveðin í tíð Trumps forseta. 

Að auki segist Biden hafa farið að ráðum sinna nánustu ráðgjafa þegar hin endanlega ákvörðun var tekin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×