Fótbolti

Styrkja baráttuna gegn kynferðisofbeldi og vilja að Kolbeinn sýni iðrun

Sindri Sverrisson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson skallar boltann frá marki í leik með IFK Gautaborg.
Kolbeinn Sigþórsson skallar boltann frá marki í leik með IFK Gautaborg. Getty/Michael Campanella

„Við gerum okkur grein fyrir því að margir telja leikmanninn ekki lengur verðskulda að spila fyrir IFK Gautaborg,“ segir í yfirlýsingu stuðningsmannaklúbbs IFK Gautaborgar vegna máls Kolbeins Sigþórssonar. Stuðningsmennirnir hafa ákveðið að styrkja samtök sem berjast gegn kynferðisofbeldi.

Kolbeinn missti á sunnudag sæti sitt í íslenska landsliðshópnum í fótbolta í kjölfar ásakana um að hafa beitt tvær konur ofbeldi haustið 2017. Hann er með samning við sænska félagið IFK Gautaborg sem gildir til áramóta, og samkvæmt íþróttastjóra félagsins stendur ekki til að rifta þeim samningi.

Englarnir, stuðningsmannaklúbbur IFK Gautaborgar, segjast halda í þá trú að fólk geti breyst og að ekki beri að útskúfa því fyrir brot geti það sýnt iðrun og axlað ábyrgð á sínum gjörðum.

„Glæpurinn er á ábyrgð gerandans. Það er á ábyrgð réttarkerfisins að mál séu sótt og refsingar ákveðnar. En við deilum öll ábyrgð á því hvað gerist þegar við fáum vitneskju um brotið,“ segir í yfirlýsingunni.

Englarnir segjast treysta knattspyrnufélaginu sínu til að taka vel ígrundaðar ákvarðanir í málinu í samræmi við gildi félagsins. Þeir vilja að Kolbeinn sýni iðrun í verki:

„Við verðum að trúa því að manneskjur geti breyst. Að einhver sem hefur gert mistök geti snúið aftur í félagsskap. Að því gefnu að sá hinn sami axli með sýnilegum hætti ábyrgð á sínum gjörðum, sýni iðrun og vilja til að gera betur.“

Samkvæmt yfirlýsingunni fara öll félagsgjöld Englanna í septembermánuði til samtaka sem berjast gegn kynferðisofbeldi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×