Viðskipti innlent

N1, Olís, Sky Lagoon og KFC vinsæl meðal handhafa ferðagjafarinnar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ferðagjöfin 2021 rennur út 30. september næstkomandi.
Ferðagjöfin 2021 rennur út 30. september næstkomandi. Vísir/Vilhelm

Alls hafa 128.892 Íslendingar sótt svokallaða ferðagjöf en 85.079 hafa verið notaðar og 70.778 fullnýttar. Samkvæmt mælaborði ferðaþjónustunnar nemur upphæð notaðra gjafa 411 milljónum króna.

Langstærstum hluta þeirrar upphæðar hefur verið varið á höfuðborgarsvæðinu, eða 164 milljónum. Þá hefur 87 milljónum verið varið hjá fyrirtækjum sem eru með starfsemi á landsvísu og 55 milljónum á Norðurlandi eystra.

Þegar upphæðir eru skoðaðar eftir flokkum hefur 157 milljónum verið varið í veitingar, 93 milljónum í afþreyingu, 66 milljónum í samgöngur og 65 milljónum í gistingu.

Það fyrirtæki sem haft mestar tekjur af ferðagjöfinni er N1, þar sem Íslendingar hafa varið 31 milljón af ferðagjöfinni. Þá hefur 25 milljónum verið varið hjá Sky Lagoon, 20 milljónum hjá Olís, 15 milljónum hjá Icelandair, 13 milljónum hjá Flyover Iceland, 10 milljónum hjá veitingakeðjunni Pizza-Pizza og 10 milljónum hjá Vök Baths.

Ferðagjöfin 2021 rennur út 30. september næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×