Erlent

Hæstiréttur neitar að fella „hjartsláttarlöggjöfina“ úr gildi

Atli Ísleifsson skrifar
Víða í Bandaríkjunum hefur löggjafinn leitað allra ráða til að takmarka aðgengi kvenna að þungunarrofi.
Víða í Bandaríkjunum hefur löggjafinn leitað allra ráða til að takmarka aðgengi kvenna að þungunarrofi. AP/LM Otero

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur hafnað því að fella úr gildi ný lög í Texas sem banna þungunarrof í nær öllum tilfellum. Lögin tóku gildi í gær og kröfðust þá fjöldi samtaka sem berjast fyrir rétti kvenna til þungunarrofs þess að Hæstiréttur landsins myndi fella þau úr gildi.

Fimm dómarar við réttinn lögðust hins vegar gegn því en fjórir voru því samþykkir. 

Breska ríkisútvarpið segir frá því að í rökstuðningi meirihluta hafi komið fram að ákvörðunin fæli þó ekki í sér einhverja niðurstöðu um hvort nýju lögin samræmdust stjórnarskrá og að dómsmál þessu tengt gætu enn komið til kasta Hæstaréttar. 

Lögin eru þau ströngustu í landinu frá því að Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu á 8. áratug síðustu aldar að konur hefðu stjórnarskrárvarinn rétt til þungunarrofs í máli sem kennt hefur verið við Roe gegn Wade.

Lögin í Texas meina konum að gagnast undir þungunarrof um leið og stuðningsmenn þeirra telja að hægt sé að greina hjartslátt fóstursins, sem gerist vanalega í kringum sex vikna meðgöngu. 

Margar konur vita ekki af því að þær séu óléttar svo snemma. 

Allir þeir þrír dómarar sem Donald Trump skipaði við réttinn greiddu atkvæði gegn því að fella lögin úr gildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×