Skoðun

Hve­nær kemur röðin að mér, mamma? Ég skal reyna að deyja ekki á meðan

Árdís R. Einarsdóttir skrifar

Hvenær kemur röðin að mér spyr barnið? Bíddu bara rólegur og reyndu að vera ekki sjálfu þér og öðrum að ama á meðan segir samfélagið við það, því geðræn vandamál eru jú bara hálfpartinn hluti af heilbrigðiskerfinu

Geturu ímyndað þér þá kvöl í hjarta og huga barns sem fær ekki útskýringu við sínum kvilla, meðan samnemendur geta fengið plástur á hné, gifs á brot þegar þau eiga um sárt að binda?

Þessi kvöl er átakanleg, og hún er ekki tímabundin líkt og skráma á hné. Kvölin, vonleysið, niðurbrotið og önnur keðjuverkandi áhrif eru daglegar endurtekningar. Engin myndi samþykkja að barn fengi að ganga um með blæðandi sár, sem augljóst væri að myndi ekki lagast án hjálpar, það væri flokkað sem vanræksla, allir eru sammála um það ekki satt?

Sálfræði- og geðlæknaþjónusta er einstaklingum með ADHD jafn nauðsynleg og súrefnið sem við öndum að okkur, ekki myndum við sætta okkur við að þurfa að bíða í röð eftir því að fá aðgang að súrefni, og svo þegar röðin væri loksins komin að okkur, við komin í andnauð og sjáum fram á að lífið fjari mögulega út hvað á hverju. Þá fengjum við þá vitneskju að aðgangur að súrefnisgrímunni kostaði reyndar 18.000 kr hver tími. Þetta hljómar kannski eins og súrealísk samlíking, en hún er það ekki í augum þeirra sem þarfnast þessarar þjónustu, þrá þessa þjónustu, þetta er raunveruleiki þeirra sem þurfa aðstoð í geðheilbrigðiskerfinu

Ef sálfræðiþjónusta yrði gerð jafn aðgengileg eins og samþykkt var einróma á Alþingi í lok síðasta árs, þá værum við að sjá stórkostlegar samfélagslegar breytingar. Færri afbrot, minnkuð notkun áfengis og vímuefna ungmenna, færri sjálfsvíg..

Viljum við ekki öll að fólkinu okkar líði sem best?

Höfundur er verkefnastjóri fræðslumála hjá ADHD samtökunum.




Skoðun

Sjá meira


×