Skoðun

Breytingarnar verða að koma frá okkur

Drífa Snædal skrifar

Kosningabaráttan er nú í algleymi og Alþýðusambandið lætur ekki sitt eftir liggja í þeirri samfélagsumræðu sem fylgir. Markmið okkar er að kjósendur séu eins vel upplýstir um eigin hagsmuni og mögulegt er og frambjóðendur þurfi að standa skil á þeim málefnum sem brenna helst á launafólki. Í vor lögðum við línurnar um stóru málin; afkomuöryggi, húsnæðismál, heilbrigðismál, menntamál og jöfnuð og það er ánægjulegt að sjá okkar málflutning vera ofarlega á baugi í lýðræðisumræðunni. Í kjölfarið höfum við átt opið samtal við formenn eða fulltrúa allra flokka sem mælast inni á þingi, nú um mundir má hlusta á hlaðvarpsþætti um hvern málaflokk í hlaðvarpi ASÍ og á fimmtudag í næstu viku þann 9. september kl. 11 eru allir formennirnir boðaðir í pallborðsumræðu sem verður í opinni dagskrá á netinu. Við hvetjum launafólk og almenning allan til að fylgjast vel með og ekki síst nýta atkvæðisréttinn sinn í komandi kosningum.

Kynferðislegt ofbeldi og áreitni er staðreynd og litar stöðu kynjanna í okkar samfélagi. Á miðstjórnarfundi ASÍ síðastliðinn miðvikudag kynnti Varða - rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins nýja könnun um mál sem koma inn á borð stéttarfélaga og varða kynferðislega og kynbundna áreitni og ofbeldi og einelti. Ljóst er að aðildarfélög ASÍ og trúnaðarmenn á vinnustöðum þurfa aukinn stuðning og fræðslu til að aðstoða þolendur og jafnvel gerendur þegar upp koma mál á vinnustöðum eða í tengslum við þá. ASÍ mun á næstunni auka fræðslu og þekkingu og nesta aðildarfélögin enn frekar en nú er gert. Verkalýðshreyfingin þarf og ætlar sér að vera hluti af þeirri menningarbreytingu sem nauðsynleg er, bæði til að sinna sínu hlutverki gagnvart félagsmönnum og axla ábyrgð á öryggi fólks í víðtæku félagsstarfi innan hreyfingarinnar.

Góða helgi, Drífa.

Höfundur er forseti ASÍ. 




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×