Bíó og sjónvarp

Líkir Dune við forrétt og segist spenntur fyrir að gera næstu mynd

Samúel Karl Ólason skrifar
Timothee Chalamet og Denis Villeneuve í Feneyjum á föstudaginn.
Timothee Chalamet og Denis Villeneuve í Feneyjum á föstudaginn. AP/Joel C Ryan

Denis Villeneuve og Timothée Chalamet segja það hafa verið draumi líkast að gera kvikmyndina Dune. Báðir vonast til þess að gera framhald, enda sé myndin í raun fyrri hluti sögunnar sem hún fjallar um.

Kvikmyndin hefur fallið misvel í kramið hjá gagnrýnendum þó viðbrögðin séu að mestu jákvæð.

Dune byggir á bókinni sem Frank Herbert gaf úr árið 1956 og framhaldssögum hans. Hún fjallar í stuttu máli um Paul Atreides (sem leikinn er af Chalamet), fjölskyldu hans og baráttu þeirra við Harkonnen-ættina um plánetuna Arrakis, sem einnig kallast Dune.

Meðal leikara í myndinni eru þau Timothée Chalamet, Zendaya, Rebecca Ferguson, Oscar Isaac, Jason Momoa, Josh Brolin, Dave Bautista, Stellan Skarsgård og Javier Bardem.

Dune gerist í stórum og ítarlegum söguheimi sem inniheldur engar tölvur, þrátt fyrir að gerast langt í framtíðinni. Heilar manna eru þjálfaðir í að framkvæma gífurlega flókna útreikninga og menn hafa náð mun meiri stjórn á hugsunum sínum og líkömum. Á Arrakkis finnst „Kryddið“ segir gerir mönnum kleift að efla heila sína enn fremur og meðal annars stýra geimskipum langar vegalengdir.

Arrakis er því mjög mikilvæg pláneta og kryddið sömuleiðis.

Plánetum í þessum söguheimi er stjórnað af aðalsættum og þeim er stýrt af keisara. Atreides-ættin tekur við stjórn Arrakis af Harkonnen-ættinni að skipan keisarans og á Leto Atreides (Oscar Isaac) að auka framleiðslu krydds en keisaraveldið stendur og fellur með því að tryggja framleiðslu kryddsins.

Hafa átt erfitt með að gera sögunni skil

Áður hefur verið reynt að gera sögu Herberts skil í kvikmyndum og sjónvarpi en það hefur gengið erfiðlega.

Alejandro jodorowsky reyndi að gera kvikmynd á áttunda áratug síðustu aldar. Eftir margra ára þróunarvinnu sat hann uppi með handrit að fjórtán klukkustunda kvikmynd sem var ekki framleidd. Ridley Scott varði sömuleiðis sjö mánuðum að undirbúningi kvikmyndar um Dune en hætti svo við og gerði upprunalegu Blade Runner í staðinn.

Þá tók David Lynch við en kvikmynd hans var gefin út árið 1984. Hún fékk hræðilegar móttökur hjá bæði gagnrýnendum og áhorfendum.

Jákvæðir en blendnir dómar

Hin nýja Dune hefur að mestu fengið góða dóma eftir að hún var frumsýnd í Feneyjum á dögunum. Í samantekt Variety segir þó að ekki hafi allir verið sáttir. Myndinni hafi bæði verið lýst sem meistaraverki og hún sögð hafa valdið vonbrigðum.

Helst beina gagnrýnendur spjótum sínum að því hvernig Villeneuve tókst að gera flókinni sögu Frank Herbert skil í kvikmyndinni. Myndin sé hins vegar mikið og gott sjónarspil. Þá hefur Villeneuve fengið hrós fyrir að gera myndina aðgengilega fyrir fólk sem hefur ef til vill ekki lekið bók eða bækur Herberts.

Villeneuve er hvað þekktastur fyrir myndir eins og Arrival, Sicario og Blade Runner 2049.

Það má með sanni segja að Dune sé stjörnum prýdd.AP/Joel C Ryan

Framhaldsmynd hefur ekki verið staðfest enn en Villeneuve hefur sagst vilja gera aðra mynd enda fjallar kvikmyndin í raun bara um fyrri hluta bókar Herbert. Þá er hann einnig sagður eiga að leikstýra fyrsta þættinum í þáttaröð HBO sem á að gerast í söguheimi Dune og heitir Dune: The Sisterhood.

Gæti hafið tökur á næsta ári en liggur ekki á

Villeneuve hefur sagt að fái hann grænt ljós frá Warner Bros. gæti hann hafið tökur strax á næsta ári. Leikstjórinn segist hafa hugsað mikið út í seinni myndina og margt sem þurfti að taka seinni myndina upp sé í raun tilbúið.

Í samtali við blaðamenn um helgina sagði Villeneuve þó að honum lægi ekki á. Hann hafi fengið tíma til að tryggja að fyrsta myndin væri eins og hann vildi hafa hana og hann vildi fá sambærilegan tíma fyrir seinni myndina.

„Gæði verða í forgangi,“ sagði Villeneuve.

Leikstjórinn sagði einnig að hann hafi upprunalega ímyndað sér að gera þrjár myndir úr tveimur fyrstu bókum Herberts, Dune og Dune Messiah. Hann væri þó ekki viss um að hann hefði geðheilsu til að framleiða þrjár myndir.

Villeneuve sagði sömuleiðis við blaðamenn að það erfiðasta við gerð Dune hefði verið að gera söguheimi Herberts skil. Það þyrfti að kynna heiminn, menningu, ættir, fjölmargar persónur og margt annað til leiks. Hann sagðist líta að fyrstu myndina sem forrétt og þá seinni sem aðalrétt.

„Eins mikið og Dune: Partur eitt var það mest spennandi verkefni sem ég hef nokkurn tímann gert, þá er ég strax meira spenntur fyrir Dune: Parti tvö.“

AP fréttaveitan hefur sömuleiðis eftir Chalamet að hann vilji endilega gera framhaldsmynd. Gerð fyrri myndarinnar hefði verið draumi líkust en hann dreymdi enn að gera aðra mynd.

Dune verður frumsýnd hér á landi þann 17. september.


Tengdar fréttir

Stjörnum prýdd stikla Dune

Myndin, sem er stjörnum prýdd, byggir á bókum Frank Herbert og fjallar um Atreides fjölskylduna og baráttu hennar við Harkonnen fjölskylduna um plánetuna Arrakis, sem einnig kallast Dune.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.