Um er að ræða vegi frá Landmannalaugum inn á Fjallabak-nyrðra, Skaftártunguvegi frá Búlandi, vegi F-210 og F-233 inn á Álftarvatnkskróknum, og vestan við vaðið yfir Hólmsár. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi.
Hlaup er nú hafið úr Eystri-Skaftárkatli og er það komið fram á vatnamælum við Sveinstind. Gert er ráð fyrir því að um tíu klukkustundum eftir það, í kvöld, megi búast við að hlaupsins verði vart við þjóðveg. Talsverð úrkoma hefur verið á svæðinu og mikið vatn í Skaftá vegna hlaupsins úr Vestari-Skaftárkatli sem varð í síðustu viku.
SMS-skilaboð hafa verið send út til fólks á svæðinu og hafa ferðamenn verið beðnir um að yfirgefa svæðið. Fólk sem er vestan Hólaskjóls er beðið að rýma í átt að Landmannalaugum.
Brennisteinsvetni berst með hlaupvatninu þegar það kemur undan jökli og er styrkur þess þá svo mikill að það getur skaðað slímhúð í öndunarvegi og augum. Búast má við að hlaupið nái hámarki við þjóðveginn á miðvikudaginn. Komi til þess að þjóðvegur 1 lokist vegna vatnavaxta er hjáleið um Meðallandið.