Það fór sem menn grunaði að eystri og stærri ketillinn í Skaftárjökli myndi hlaupa í beinu framhaldi af þeim vestri í síðustu viku en farið var yfir stöðuna í fréttum Stöðvar 2. Íshellan yfir eystri katlinum var tekin að síga í gærmorgun en það var svo í morgun sem hlaupvatnið brast undan jöklinum.

Í dag sýndu mælar við Sveinstind hratt vaxandi rennsli og hafði það þrefaldast frá hádegi, farið úr 300 rúmmetrum á sekúndu upp í eittþúsund undir kvöld. Sérfræðingar Veðurstofu áætla að hlaupið geti farið í tvöþúsund rúmmetra á sekúndu. Það er svipað og í hlaupi árið 2018 en talsvert minna en í hamfarahlaupinu 2015, sem fór í þrjúþúsund rúmmetra á sekúndu.
Almannavarnir lýstu í gær yfir hættustigi og hafa sms-skilaboð verið í send í farsíma á svæðinu, bæði á íslensku og ensku. Þá er búið að rýma fjallaskála í Hólaskjóli og hálendisleiðum á svæðinu, eins og Fjallabaksleið nyrðri, var lokað í kvöld.

Svo háttar jafnan til með Skaftárhlaup að meginhluti þeirra fylgir ekki farvegi Skaftár alla leið til sjávar heldur er áætlað að um áttatíu prósent hlaupvatnsins fari yfir í Eldvatn og síðan til sjávar um Kúðafljót.
Búist er við að hlaupsins fari að gæta í byggð í Skaftártungu í nótt eða snemma í fyrramálið. Eftir það muni rennsli aukast jafnt og þétt og líklega ná hámarki við þjóðveg eitt í Eldhrauni á miðvikudagskvöld eða aðfaranótt fimmtudags.
Miðað við fyrri hlaup af þessari stærð má telja víst að sveitavegir lokist og það flæði yfir tún bænda og einnig þykir líklegt að það flæði yfir hringveginn í Eldhrauni. Lokist hann verður umferð hleypt um Meðalland og var veghefill sendur þangað í dag til að hefla malarveginn.

Og svo verður fróðlegt að sjá hvernig nýjan brúin yfir Eldvatn reynist nú þegar hún fær á sig stórhlaup í fyrsta sinn og einnig hvort gamla brúin muni enn hanga uppi þegar flóðinu slotar.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: