Innlent

Þykir leitt að hafa gleymt sér á hár­greiðslu­stofunni

Heimir Már Pétursson skrifar
Áslaug Arna birti mynd af sér í klippingu, án grímu, og uppskar gagnrýni vegna grímuleysis.
Áslaug Arna birti mynd af sér í klippingu, án grímu, og uppskar gagnrýni vegna grímuleysis.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segist hafa gleymt sér þegar hún fór í klippingu á mánudag án þess að bera sóttvarnagrímu. Hún birti mynd af sér í klippingunni á Story á Instagram en slíkar myndir hverfa eftir sólarhring.

Í svari við fyrirspurn fréttastofu segir Áslaug Arna að henni þyki leiðinlegt að hafa gleymt sér með þessum hætti og það væri ekki til fyrirmyndar.

„Ég sat þarna með kaffibolla í klippingu hjá vinkonu minni sem ég á oft grímulaus samskipti við,“ segir Áslaug Arna. 

Hér má sjá gagnrýni annars hársnyrtis sem spurði hvort reglur um grímuskyldu giltu ekki um alla.

Vinkona hennar sé bæði búin að fá Covid 19 og bólusetningu. En vinkonan er einnig grímulaus á umræddri mynd sem greinilega er tekin á hársnyrtistofu. Áslaug Arna segist ekki hafa gert kröfu um að hún bæri grímu vegna þess að hún væri bólusett og búin að fá covid 19.

Annar hársnyrtir birti myndina af Áslaugu Örnu og gagnrýnir dómsmálaráðherra og spyr hvort aðrar reglur gildi fyrir ráðherra. 

Á Covid.is segir um grímuskyldu:

Andlitsgrímur skal nota þar sem ekki er unnt að tryggja 1 metra nálægðarmörk svo sem í heilbrigðisþjónustu, verslunum, söfnum, innanlandsflugi og ferjum, almenningssamgöngum, leigubifreiðum og hópbifreiðum, í verklegu ökunámi og flugnámi, starfsemi hárgreiðslustofa, snyrtistofa, nuddstofa, húðflúrstofa, hundasnyrtistofa, sólbaðsstofa og annarri sambærilegri starfsemi. Andlitsgríma skal hylja nef og munn.

Víst er að margur hársnyrtirinn er orðinn þreyttur á að bera grímu daginn út og inn. Meðal þeirra er Egill Einarsson sem skilur ekkert í því að þurfa að vera með grímu allan daginn en fara svo eftir vinnu á barinn, í Bónus og ræktina þar sem enginn þurfi að vera með grímu.

Hvaða leikrit er þetta? spyr Egill á Twitter.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×