Umfjöllun: Breiða­blik - Þróttur R. 6-1 | Engin Evrópyþynnka í Blikum

Sverrir Mar Smárason skrifar
Breiðablik vann frábæran sigur á fimmtudagskvöld.
Breiðablik vann frábæran sigur á fimmtudagskvöld. Vísir/Hulda Margrét

Breiðablik og Þróttur R. áttust við í loka umferð Pepsi-Max deild kvenna í erfiðum aðstæðum á Kópavogsvelli í dag. Bæði lið örugg með sín sæti í deildinni og því ekkert undir í leiknum annað en yfirhöndin fyrir bikarúrslitaleik þessara liða sem fer fram föstudaginn 1.október.

Fór það svo að Breiðablik vann einkar sannfærandi 6-1 sigur.

Fyrri hálfleikurinn var alls ekki mikið fyrir augað. Þróttur spilaði með vindinn í bakið en gekk erfiðlega að nýta sér það almennilega. Breiðablik voru heilt yfir sterkari aðilinn í hálfleiknum og þeim tókst að komast yfir á 16.mínútu þegar Birta Georgsdóttir reyndi fyrirgjöf inn í teig Þróttar sem fór í gegnum allan teiginn. 

Á hinum endanum tók Hafrún Rakel við boltanum, keyrði framhjá nokkrum varnarmönnum inn í teiginn og lagði boltann svo snyrtilega í netið.

Blikastúlkur héldu yfirhöndinni út hálfleikinn. Fengu fjöldann allan af hornspyrnum og settu mikla pressu á vörn Þróttar. Það var svo ekki fyrr en á lokamínútu fyrri hálfleiks sem þeim tókst a auka forystuna. Taylor Marie Ziemer fékk þá boltann inni á miðri miðjunni og sendi góða sendingu út til vinstri á Öglu Maríu. 

Agla María fór illa með Elísabetu Freyju, varnarmann Þróttar, áður en hún sendi fasta sendingu fyrir markið á Tiffany Mc Carty. Tiffany virtist vera rangstæð en ekkert dæmt og lagði hún boltann auðveldlega yfir línuna og staðan því 2-0 Blikum í vil þegar hálfleiks flautið gall.

Síðari hálfleikur var mun líflegri þrátt fyrir að hafa farið mjög rólega af stað. Blikarnir áfram betri aðilinn og bættu við forskot sitt á 53.mínútu. Það skoraði Vigdís Lilja Kristjánsdóttir, eftir að hafa komið inná sem varamaður í hálfleik, eftir magnaðan undirbúning frá Öglu Maríu Albertsdóttur. Þrettán mínútum síðar var Agla María aftur á ferðinni. 

Nú reyndi hún skot sem Íris Dögg, markvörður Þróttar, varði til hliðar þar sem Birta Georgsdóttir var mætt til þess að fylgja á eftir sem hún gerði og Blikastúlkur komnar með fjögurra marka forystu.

Eftir þetta bætti lið Þróttar aðeins í. Þær fóru að láta boltann ganga betur og náðu að skapa sér nokkur færi. Þær nýttu svo eitt slíkt á 74.mínútu. Dani Rhodes átti þá góða fyrirgjöf frá hægri kantinum sem varnarmenn Blika voru í vandræðum með að hreinsa. Andrea Rut setti góða pressu á vörnina og náði að pota boltanum á Ólöfu Sigríði, sem hafði komið inná sem varamaður í hálfleik. 

Ólöf, ein gegn Telmu Ívarsdóttur, lagði boltann í netið og Þróttur minnka muninn. Stuttu seinna fengu þær svo annað gott færi. Katherine Cousins fékk þá góða sendingu frá Elísabetu Freyju inn í teiginn, tók boltann niður og skaut að marki en Telma Ívarsdóttir varði. Boltinn datt til Dani Rhodes sem ætlaði að skora í autt markið en skaut boltanum í Katherine sem lá í grasinu.

Agla María Albertsdóttir skoraði svo loksins sjálf í þessum leik eftir að hafa lagt upp þrjú mörk fyrir samherja sína. Varamaðurinn Margrét Brynja átti þá góðan sprett inn í teiginn áður en hún lagði boltann út á vítapunkt þar sem Agla María stóð óvölduð og skoraði með skoti í bláhornið. Staðan orðin 5-1 heimastúlkum í vil og þær voru ekki hættar.

Agla María hefði getað unnið gullskóinn með fleiri mörkum í dag og það sást nokkuð greinilega undir lokin að hún var vel meðvituð um það sjálf. Reyndi nokkur skot sem Íris Dögg varði frá henni. Íris Dögg náði hins vegar ekki að verja síðasta skot leiksins að marki. 

Hildur Antonsdóttir átti það af 35 metra færi með vindinn í bakið eftir að hafa fengið boltann inni á miðjunni. Íris Dögg réði ekki við það og lokatölur 6-1.

Af hverju vann Breiðablik?

Þær voru skilvirkar í sínum sóknarleik. Nýttu þau færi sem þær bjuggu sér til og lið Þróttar átti erfitt með að verjast þeim. Varnarleikurinn var þéttur og skipulagður og gáfu þær fá færi á sig.

Hverjar stóðu upp úr?

Agla María Albertsdóttir er óumdeildur maður leiksins. Lagði upp þrjú mörk og skoraði eitt. Frábær leikmaður sem ætti í raun ekki að vera í deildinni hér heima með sína hæfileika.

Hvað hefði mátt betur fara?

Fyrst og fremst það sem mátti betur fara var veðrið í þessum leik. Ömurlegur vindur og rigning allan tímann. Annars fannst mér Þróttarar missa svolítið trúnna á verkefninu eftir fyrsta mark Breiðabliks, það má ekki vera uppá teningnum næst þar sem liðin mætast í úrslitaleik Mjólkurbikarsins.

Hvað gerist næst?

Bæði lið eiga sama leikinn næst. Bikarúrslit 1.október á Laugardalsvelli kl. 19:15.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira