Breska ríkisútvarpið greinir frá þessu og vitnar í Abdul Baqi Haqqani, menntamálaráðherra Talibana, sem ráða nú ríkjum í Afganistan. Í valdatíð þeirra á árunum 1996 til 2001 var konum með öllu bannað að ganga í háskóla. Haqqani sagði þá að til stæði að endurskoða hvaða fög eru kennd í afgönskum háskólum.
Í síðasta mánuði tóku Talibanar völdin í Afganistan eftir mikla sókn, sem stóð yfir samhliða því að Bandaríkjaher dró úr umsvifum sínum í landinu. Bandaríkin réðust inn í Afganistan árið 2001 en hafa nú dregið sig þaðan út, 20 árum síðar.
Nýju reglurnar kveða þá á um að konum í háskólum verði gert að klæðast andlitsslæðum. Stúdentum í Afganistan var fyrir valdatöku Talibana í sjálfsvald sett hvernig þeir voru til fara í skólanum og karlar og konur máttu mennta sig á sömu stofnununum.
Tjöld og tækni
BBC hefur eftir Haqqani að það verði engum vandkvæðum bundið að fá Afgani til þess að hlíta reglunum.
„Það er ekki vandamál að binda endi á þetta blandaða menntafyrirkomulag. Þetta fólk er múslimar og mun samþykkja þetta,“ sagði hann.
Með breytingunni verður fyrirkomulagið á þann veg að kennarar eiga almennt að vera af sama kyni og nemendurnir sem þeir kenna. Borið hefur á áhyggjum af því að fyrirkomulagið myndi í reynd útiloka konur frá því að sækja sér háskólamenntun í landinu, sökum skorts á kvenkyns kennurum. Haqqani er þessu ósammála og segir aðrar lausnir í sjónmáli.
„Þetta fer allt eftir afkastagetu háskólans. Við getum líka látið karlkyns kennara kenna fyrir aftan tjald, eða stuðst við tækni.“