Í frétt Bloomberg segir að erfitt hafi verið að anna eftirspurn á áli síðustu mánuði og hefur valdarán hersins í Gíneu fyrr í mánuðinum ekki bætt úr stöðunni. Gínea er stór framleiðandi báxíts sem ál er að stærstum hluta unnið úr.
Eftirspurn eftir álmálmi í heiminum er mikil og hafði heimsmarkaðsverð farið hækkandi fyrir valdaránið. Þannig hefur verð hækkað um 40 prósent frá í janúar.
Sú staðreynd að efnahagskerfi heimsins hafa aftur verið að taka við sér eftir að mikið hægði á eftir að heimsfaraldur kórónuveirunnar skall á, er ein ástæða þess að heimsmarkaðsverð hefur farið upp á við.
Sömuleiðis hefur orkuverð í Kína farið hækkandi sem hefur svo leitt til að hægt hafi á framleiðslu í Xinjiang-héraði þar í landi.