Erlent

Lögmaður Andrésar segir samkomulag Giuffre og Epstein fría prinsinn ábyrgð

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Stækkuð mynd af Andrési og Giuffre. Á myndinni sést einnig Ghislaine Maxwell, sem hefur verið sökuð um að sjá Epstein og vinum hans fyrir ungum stúlkum. Getgátur eru uppi um að Epstein sjálfur hafi tekið myndina.
Stækkuð mynd af Andrési og Giuffre. Á myndinni sést einnig Ghislaine Maxwell, sem hefur verið sökuð um að sjá Epstein og vinum hans fyrir ungum stúlkum. Getgátur eru uppi um að Epstein sjálfur hafi tekið myndina.

Lögmaður Andrésar, hertogans af York, segir kæru Virginiu Giuffre á hendur prinsinum rakalausa og óframfylgjanlega. Hann segir sátt Giuffre við Jeffrey Epstein leysa Andrés undan allri ábyrgð og þá hafi honum ekki verið birt stefna með réttum hætti.

Giuffre hefur löngum haldið því fram að hún hafi verið neydd til þess að stunda kynlíf með Andrési þegar hún var undir lögaldri og þá hafi prinsinn vitað að hún væri fórnarlamb mansals. Segir hún Andrés hafa brotið gegn sér að minnsta kosti þrisvar sinnum.

Andrés og fjárfestirinn Epstein voru vinir en síðarnefndi svipti sig lífi í fangelsi í New York.

Giuffre hefur nú kært Andrés fyrir kynferðisbrot en þar sem málið er einkamál en ekki refsimál er útilokað að prinsinn verði framseldur. Hann hefur staðfastlega neitað því að hafa brotið gegn Giuffre og sagst ekki muna eftir henni, jafnvel þótt fræg mynd sé til af þeim saman.

Andrew Brettler, lögmaður Andrésar, hefur óskað eftir afriti af samkomulagi Giuffre og Epstein frá 2009 en hann segir það fría prinsinn allri mögulegri ábyrgð.

Þá segir hann prinsinum ekki hafa verið birt stefna með lögformlegum hætti. Dómarinn í málinu, Lewis Kaplan, hafnaði þeim staðhæfingum Brettler að það væri undir Hæstarétti Bretlands komið hvernig birta ætti stefnuna en gaf David Boise, lögmanni Giuffre, viku til að gera það með réttum hætti.

Lögmenn Giuffre sögðust telja hafa gert það nú þegar en stefnan hefði verið látin í hendur lögreglumanns sem stóð vörð við heimili Andrésar í Windsor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×