Skoðun

Virkar Haf­rann­sóknar­stofnun?

Gunnar Ingiberg skrifar

Nú er liðnar tæpar tvær vikur síðan strandveiðum átti að ljúka formlega. Raunveruleikinn er nú samt sá að þeim lauk fyrir fjórum eða þremur vikum. Þrátt fyrir viðbót ráðherra dugði þessi magra ráðstöfun ekki út tímabilið. Það hefðu þurft um þúsund tonn í viðbót til þess að halda 650 bátum í notkun út ágústmánuð.

Samkvæmt skýrslu Vinnustofu um nýtingu íslenska þorsksins (WKICECOD), næst jafnstöðuafli í kringum 23% nýtingarhlutfall. Í skýrslunni er þó líka tekið skilmerkilega fram að núverandi 20% nýtingarhlutfall kemur til með að halda íslenska þorskstofninum innan áhættumarka næstu ár og áratugi. En það er samt nákvæmlega sama og var sagt árið 2011 þegar 20% aflaregla var tekin upp.

Stöldrum nú aðeins við. Ef við höldum áfram að gera það sama áfram þá verður niðurstaðan betri í framtíðinni. Við ætlum að nýta þorskstofninn minna, þó svo að aðferðafræðin í kringum nýtinguna bregðist okkur trekk í trekk þegar á reynir. Núna er þörf á því að vísindin séu tekin til gagngerrar endurskoðunar.

Hafrannsóknastofnun týndi einum fimmta þorskstofnsins á síðastliðnu ári. Staðan er sú nákvæmlega sama og hún var 2011. Var þá áratugsuppbygging þorsksins ekkert nema sjálfskipuð hungursneið?

Við verðum að kúpla Hafrannsóknastofnun frá ráðuneytinu, hengja hana á háskólann. Það er ekkert vísindalegt við núverandi nálgun fiskveiðistjórnunar. Stefnan er sveltistefna hönnuð til þess að fækka aðilum í sjávarútvegi, skera niður fyrirtæki á tíu ára fresti og þjappa saman auðlind þjóðarinnar í hendur fárra aðila.

Það eru engin haldbær rök fyrir því að handfæraveiðum sé haldið frá miðunum til verndar þorskinum. Svigrúmið milli áætlaðra hættumarka og núverandi aflareglu eru u.m.þ.b. 28.500 tonn af þorski. Það er þrisvar sinnum meira heldur en allur floti strandveiðanna hefur yfir sumarið. Sendum Sjálfstæðisflokkinn og hjálparhellur í launalaust leyfi og kjósum flokka með skýra stefnu í sjávarútvegsmálum.

Veljum frjálsar handfæraveiðar! Kjósum Pírata

Höfundur er frambjóðandi Pírata í Norðvesturkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×