Skoðun

At­kvæði fatlaðs fólks eru dýr­mæt

Anna Lára Steindal og Sunna Dögg Ágústsdóttir skrifa

Þann 25. september nk. verður kosið til Alþingis á Íslandi. Þá fáum við tækifæri til að kjósa stjórnmálaflokka og einstaklinga til þess að stjórna landinu okkar, setja lög og reglur og ákveða hvaða sjónarmið og áherslur eiga að skipta mestu máli næstu fjögur árin við stjórn landsins.

Allir, sem eru orðnir 18 ára, hafa kosningarétt. Það er mjög mikilvægt að nýta kosningaréttinn því hann er okkar tækifæri til þess að hafa áhrif á hvernig samfélagi við búum í - þau réttindi og tækifæri sem við og aðrir njóta. Daginn sem kosið er sitjum við öll við sama borð; ungir og gamlir, konur, karlar og hinsegin fólk, fatlað fólk og ófatlað. Með atkvæði þínu ertu að taka þátt í að móta framtíðina. Þú velur þann flokk sem þér líst best á og telur að hafi hugmyndir að góðu samfélagi. Mætir svo á kjörstað og greiðir honum atkvæði þitt.

Hvernig veit ég hvað ég ætti að kjósa?

Þeir flokkar sem bjóða fram eru flestir með heimasíður og/ eða gefa út bæklinga þar sem hugmyndir þeirra og áherslur eru kynntar. Oft eru líka umræður í sjónvarpi og útvarpi þar sem fjallað er um kosningar og hvað hver flokkur telur mikilvægt að gera. Þá er líka hægt að heimsækja kosningaskrifstofur flokkanna og spjalla við talsmenn þeirra og spyrja spurninga.

Kosningaréttur fatlaðs fólks er mjög dýrmætur. Við vitum að fatlað fólk mætir margvíslegum hindrunum á kjörstað, til dæmis hvað varðar aðgengi að kjörstað og að kosningaefni við hæfi og ófullnægjandi aðstoð í kjörklefanum. Þetta gerir það meðal annars að verkum að fatlað fólk er ólíklegra til að kjósa en þeir sem ekki eru fatlaðir. Það er því miður líklegt til að hafa áhrif á hversu mikil áhersla er lögð á málefni fatlaðs fólks eftir kosningar og líka hvort stjórnmálamenn öðlist mikilvægan skilning og innsýn í líf og stöðu fatlaðs fólks í samfélaginu. Þess vegna hvetja Landssamtökin Þroskahjálp allt fatlað fólk sem hefur kosningarétt mjög eindregið til þess að mæta á kjörstað og nýta atkvæði sitt til þess að hafa áhrif á framtíð okkar allra.

Anna Lára Steindal, verkefnisstjóri hjá Þroskahjálp

Sunna Dögg Ágústsdóttir, verkefnisstjóri ungmennaráðs Þroskahjálpar




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×