Skoðun

Þagmælska

Marta Jóns Hjördísardóttir skrifar

Hugleiðingar vegna umræðu um málefni um sjúklinga í fjölmiðlum.

Um daginn las ég viðtal heilbrigðisstarfsmann þar sem farið var töluvert nákvæmlega yfir sjúkrasögu sjúklings. Augljóst var um hvaða sjúkling var verið að ræða enda aðstæður sem leiddu til þess að þessi einstaklingur þurfti að leita á sjúkrahús mjög óvanalegar. Tekið var fram að sjúklingur hefði gefið leyfi fyrir birtingu upplýsinga.

Úr siðareglum hjúkrunarfræðinga:

„5. grein

Hjúkrunarfræðingur deilir ekki persónugreinanlegum upplýsingum í fjölmiðlum, á samfélagsmiðlum eða annars staðar á veraldarvefnum“.

Úr siðareglum lækna:

„Lækni er óheimilt að skýra frá heilsufari, sjúkdómsgreiningu, horfum, meðferð eða öðrum einkamálum sjúklinga…“

Samkvæmt lögum um réttindi sjúklinga getur sjúklingur veitt heimild til að persónugreinanlegum upplýsingum sé deilt. En það má velta fyrir sér hvenær sjúklingur sannarlega er fær um að veita slíka heimild og skilja að fullu hvað í slíkri heimild felst.

Samband heilbrigðisstarfsfólks við sjúkling getur verið mjög flókið og einkennst af valdaójafnvægi þar sem sjúklingur upplifir sig valdalausan og jafnvel að viðkomandi telji ekki öruggt til að gefa upp raunverulegar skoðanir eða álit. Þetta valdaójafnvægi getur þannig haft þau áhrif á að sjúklingur sé ekki fær um að veita upplýst óþvingað samþykki.

Það er alltaf hlutverk heilbrigðisstarfsfólks að standa vörð um réttindi sjúklinga, vera málsvari þeirra og ganga úr skugga að farið sé að lögum. Heilbrigðisstarfsmaður þarf að þekkja sína valdastöðu og gera sér grein fyrir að ýmislegt getur staðið í vegi fyrir því að sjúklingar hafi sannarlega allar upplýsingar sem þarf til að veita samþykki fyrir að persónugreinanlegum upplýsingum sé deilt.

Við verðum alltaf að hafa hagsmuni sjúklinga í öndvegi og vera málsvarar þeirra.

Það er okkar hlutverk.

Höfundur er hjúkrunarfræðingur/verkefnastjóri MPM og formaður fagráðs Landspítala.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×