Skoðun

Þjóðar­höllin rísi

Ásmundur Einar Daðason, Lilja D. Alfreðsdóttir og Willum Þór Þórsson skrifa

Laugardalurinn hefur um áratugaskeið verið vettvangur margra stærstu sigra í íslenskri íþróttasögu, hvort sem þeir hafa unnist í Laugardalshöllinni eða á -vellinum. Aðstaðan í Laugardalnum er hins vegar löngu úr sér gengin og landsleikir í handbolta eða körfubolta þurfa sérstakar undanþágur alþjóðasambanda, því Laugardalshöllin uppfyllir ekki alþjóðlegar kröfur. Þar er gólf­flöt­ur of lít­ill, rými fyr­ir áhorf­end­ur og íþróttafólk of smátt og auka­rými fyr­ir ýmsa þjón­ustu ekki til staðar.

Uppbygging á bæði nýrri höll og velli hefur verið til umræðu í fjölda ára, en erfitt hefur reynst að koma málinu af umræðustigi milli ríkis og borgar. Nú horfir hins vegar til betri vegar, því loksins liggur fyrir tillaga með vandaðri þarfagreiningu og mati á bæði stofn- og rekstrarkostnaði vegna nýrrar þjóðarhallar fyrir inniíþróttir. Heiðurinn af þeirri tillögu á starfshópur sem mennta- og menningarmálaráðherra skipaði, með fulltrúm margra af helstu hagaðilum.

Hús sem iðar af lífi

Tæknilega er hægt að ráðast í breytingar á fyrirliggjandi húsnæði fyrir einstaka viðburði til að uppfylla kröfur, en slíkt er mjög kostnaðarsamt og getur ekki talist framtíðarlausn í neinu tilliti. Það blasir því við hver næstu skref eiga að vera; að hefjast handa við byggingu á nýrri þjóðarhöll sem uppfyllir alþjóðlegar kröfur! Slík þjóðarhöll þarf að standa undir nafni og iða af lífi, frá morgni til kvölds. Við sjáum fyrir okkur fjölnotahús, sem gæti hýst stóra tónlistar- og menningarviðburði, rafíþróttamót, margvíslega æskulýðsstarfsemi og verið þungamiðjan í lýðheilsustarfi landans. Hún á að vera miðpunkturinn í íþróttastarfi þjóðarinnar, reglulegur áfangastaður fjölskyldna og íþróttafólks og laða til sín unga sem aldna. Hún ætti jafnframt að samnýtast með nýjum útileikvangi, en áætlanir um byggingu knattspyrnuleikvangs eru líka langt á veg komnar.

Tíminn er núna

Starfshópurinn leggur til tvo kosti; annars vegar hús fyrir 5000 áhorfendur og hins vegar hús fyrir 8600 áhorfendur. Grunnur að rekstraráætlun fyrir báða kostina liggur fyrir og ekkert því til fyrirstöðu að taka stökkið, enda er tími innviðafjárfestinga runninn upp. Eftir mikla yfirlegu er lagt til að Þjóðarhöllin rísi í Laugardalnum í Reykjavík þar sem fyrir er miðstöð íslensks íþróttalífs og samgöngur góðar. Framund­an er að tryggja fjár­mögn­un, ráðast í hönn­un og grípa skófl­una og byggja framtíðarleik­vanga fyr­ir landslið Íslend­inga. Ef við ætlum áfram að eiga íþróttafólk í fremstu röð á heimsvísu verðum við að bæta úr aðstöðumálum, annars er raunveruleg hætta á að við drögumst aftur úr öðrum þjóðum. Nú er komið að því að bretta upp ermarnar og klára þetta mál sem hefur allt of lengi fengið að mara í hálfu kafi.

Við Íslendingar höfum átt okkur þann draum um ára­tuga­skeið að byggja þjóðarleikvanga fyr­ir íþrótt­astarf í land­inu. Nú er stór hluti und­ir­bún­ings­vinn­unn­ar kom­inn vel á veg og hægt er að taka næstu skref. Alþjóðasam­bönd hafa þegar gefið okk­ur gula spjaldið vegna aðstöðuleys­is, og ef ekk­ert verður að gert gæti það rauða fylgt í kjöl­farið. Tryggjum að svo verði ekki.

Höfundar eru frambjóðendur Framsóknarflokksins. 




Skoðun

Sjá meira


×