Lífið

Leik­stjóri Notting Hill er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Roger Michell leikstýrði rómantísku gamanmyndinni Notting Hill mmeð þeim Hugh Grant og Juliu Roberts í aðalhlutverkum. Myndin kom út árið 1999.
Roger Michell leikstýrði rómantísku gamanmyndinni Notting Hill mmeð þeim Hugh Grant og Juliu Roberts í aðalhlutverkum. Myndin kom út árið 1999. Getty

Breski kvikmyndaleikstjórinn Roger Michell, sem þekktastur er fyrir að hafa leikstýrt myndinni Notting Hill, er látinn. Umboðsmaður Michell segir hann hafa andast í gær, 65 ára að aldri.

Michell fæddist í Suður-Afríku og var sonur diplómata. Á æskuárum sínum bjó hann meðal annars í Beirút í Líbanon, Damaskus í Sýrlandi og Prag í Tékklandi, en fluttist síðar til Bretlands og átti farsælan feril sem leikstjóri í leikhúsi áður en hann sló í gegn sem kvikmyndaleikstjóri.

Fyrsta myndin sem hann leikstýrði var myndin My Night with Reg, en síðar átti hann einnig eftir að leikstýra myndum á borð við Venus og My Cousin Rachel.

Rómantíska gamanmyndin Notting Hill kom út árið 1999 og skartaði þeim Hugh Grant og Juliu Roberts í aðalhlutverkum og sló strax í gegn. Myndin var meðal annars tilnefnd til þriggja Golden Globe verðlauna og þriggja BAFTA-verðlauna.

Síðasta myndin sem Michell leikstýrði, The Duke, með þeim Helen Mirren, Jim Broadbent, og Matthew Goode í aðalhlutverkum, verður frumsýnd í febrúar á næsta ári.

Hann eignaðist fjögur börn, þau Harry, Rosie, Maggie og Sparrow.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×