Viðskipti erlent

Hóta lögsókn vegna einkaréttar á lillabláum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mondelez segist eiga einkarétt á lillabláum matvælaumbúðum.
Mondelez segist eiga einkarétt á lillabláum matvælaumbúðum.

Sælgætisrisinn Mondelez hefur hótað fyrirtækinu Nurture Brands lögsókn ef það bregst ekki við og breytir umbúðum ávaxtastykki innan sex mánaða. Forsvarsmenn Mondelez halda því fram að litur umbúðanna brjóti gegn einkarétti fyrirtækisins.

Cocoa ávaxtastykkið, sem tilheyrir línunni Primal Pantry, er fallega lillablátt en sama má segja um Milka umbúðir Mondelez og segja talsmenn síðarnefnda fyrirtækisins það „eiga“ litinn. Liturinn er sumsé skráður sem vörumerki hjá Hugverkastofu Evrópusambandsins.

Báðar umbúðir eru sannarlega lillabláar en eigendur Nurture Brands segja litina engu að síður ólíka og raunar töluvert ólíka. Hafna þeir því að þeir séu að ganga á einkarétt Mondelez.

Adam Draper, framkvæmdastjóri Nurture Brands, segir umrætt ávaxtastykki hafa verið í framleiðslu frá 2016, þegar margir ólíkir litir voru valdir á umbúðirnar til aðgreiningar. „Við teljum litinn okkar ekki einu sinni á sama rófi,“ segir hann um litinn á Milka umbúðunum.

Mondelez hefur ekki rökstutt það með neinu móti að um sé að ræða sama litinn, að sögn Draper. Ef fyrirtækið geti sýnt fram á það sé hann viljugur til samstarfs en hann hyggist ekki endurkalla allar vörur sínar í Evrópu að óbreyttu.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Mondelez, sem er bandarískt fyrirtæki, freistar þess að slá eign sinni á lit umbúða en árið 2019 tapaði dótturfyrirtæki þess, Cadbury, máli sem sömuleiðis snérist um fjólubláan lit umbúða.

Auk Milka og Cadbury á Mondelez einnig vörumerkin Toblerone og Oreo, svo eitthvað sé nefnt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×