„Landskjörstjórn mun funda klukkan hálf tvö í dag til að fara yfir stöðuna og ræða málin. Ég mun leggja til að það verði óskað eftir skýrslu um framkvæmd talninga og geymslu kjörgagna frá yfirkjörstjórn í Norðvesturkjördæmi en einnig frá öðrum yfirkjörstjórnum. Þannig að landskjörstjórn hafi upplýsingar um hvernig framkvæmdinni og talningunni var háttað í hverju kjördæmi,“ segir Kristín.
Aðspurð hvort tilefni sé til endurtalningar í kjördæmum landsins segir Kristín:
„Það hefur komið fram beiðni frá umboðsmönnum um að það verði endurtalið í Suðurkjördæmi. Ég veit að yfirkjörstjórnnin í Suðurkjördæmi mun funda upp úr hádegi til að taka afstöðu til þess hvort það verði endurtalið þar. Varðandi önnur kjördæmi, miðað við þær upplýsingar sem landskjörstjórn hefur núna undir höndum, þá verður ekki séð að það sé þörf á því að mati landskjörstjórnar. En auðvitað er matið í höndum yfirkjörstjórna í hverju og einu kjördæmi. Það eru þær sem bera ábyrgð á framkvæmd talningarinnar.“
Karl Gauti Hjaltason, fráfarandi þingmaður Miðflokksins, og Magnús Davíð Norðdahl, oddviti Pírata í Norðvesturkjördæmi, ætla að kæra framkvæmd kosninganna. Karl Gauti til lögreglu en Magnús Davíð til kjörbréfanefndar.