Það var fullt út úr dyrum í Gamla bíói í gær. Að loknum fordrykk settust gestir inn í sal þar sem haldnar voru nokkrar ræður. Það var einhver einstakur sjarmi yfir því að opnunarmynd hátíðarinnar, Versta manneskja í heimi, væri sýnd í þessu fallega húsi.
Í gær var svo frumsýnd stuttmyndin Eldingar eins og við, einlæg stuttmynd eftir Kristínu Björk Kristjánsdóttir sem hún tileinkaði móður sinni.Einnig var sýnt verkefnið RIFF Royalle sem frumsýnt var á Vísi fyrr í vikunni.
Sverrir Þór Sverrisson, betur þekktur sem Sveppi, tók að sér RIFF-gusuna í ár þar sem hann gerði grín að kvikmyndagerð á Íslandi. Tók hann meðal annars fyrir verkefni eins og Hvítur, hvítur dagur, Netflix þættina Katla og kvikmyndina Dýrið. Aðstandendur þessara mynda voru margir í salnum og var mikið hlegið.
Dagskráin endaði svo á því að opnunarmynd hátíðarinnar var sýnd, Versta manneskja í heimi eftir Joachim Trier og eftir sýninguna svaraði hann spurningum gesta úr sal. Myndin hefur vakið mikla athygli síðan á Cannes og upplifðu áhorfendir alls konar tilfinningar enda er söguþráðurinn fyndinn, sorglegur og vandræðalegur allt í bland. Myndin hlaut verðlaun í Cannes fyrir besta kvenleik, enda er Renate Reinsve frábær í þessari kolsvörtu rómantísku gamanmynd.
Heiðurgestirnir Debbie Harry (Blondie), Joachim Trier og Mia Hansen-Løve voru öll viðstödd opnunina í gær. Það er óhætt að fullyrða að Joachim og Mia séu með áhugaverðustu og eftirsóttustu ungu leikstjórum samtímans og afhenti Guðni Th. forseti Íslands þeim heiðursverðlaunin á Bessastöðum í gær. Þau voru bæði með nýjar myndir í Cannes í sumar sem fengu afbragðs dóma og verða þær sýndar á RIFF ásamt eldri myndum þeirra.
Hér fyrir neðan má sjá nokkrar fleiri myndir frá opnunarkvöldi RIFF.