Innlent

Vara við hvössum vindstrengjum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Veðrið er hvað skaplegast á suðurhelmingi landsins.
Veðrið er hvað skaplegast á suðurhelmingi landsins. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan varar við hvössum vindstrengjum sem gætu verið varasamir fyrir ökutæki sem eru viðkvæm fyrir vindi.

Á þetta einkum við á Suðausturlandi og við fjöll á vestanverðu landinu að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Þar segir að lægðir haldi til austur af landinu næstu daga sem valdi yfirleitt norðaustlægum vindum. Engar viðvaranir samkvæmt litakerfi Veðurstofunnar eru þó í gildi.

Víða rigning fyrir norðan og austan og einnig slydda þar eftir helgina, en úrkomulítið suðvestantil. Hiti þrjú til tíu stig, hlýjast syðst.

Veðurhorfur á landinu

Norðaustan og norðan 10-18 m/s, hvassast norðvestantil og á Suðausturlandi. Víða rigning, en úrkomulítið sunnan- og suðvestanlands. Hiti 3 til 10 stig, hlýjast syðst.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag:

Norðan 10-18 m/s en hægari vindur um austanvert landið. Víða rigning, en þurrt og bjart suðvestantil á landinu. Hiti 3 til 10 stig, hlýjast syðst á landinu.

Á mánudag:

Norðan 13-20 m/s. Víða rigning eða slydda, og talsverð úrkoma um landið norðanvert en þurrt sunnan- og suðvestanlands. Hiti frá frostmarki í innsveitum fyrir norðan, upp í 9 stig við suðurströndina.

Á þriðjudag:

Norðan 5-13. Dálítil snjókoma eða slydda um norðaustanvert landið og stöku skúrir á Suðausturlandi, en þurrt og bjart suðvestantil. Hiti 0 til 5 stig.

Á miðvikudag:

Norðlæg átt og skýjað, en úrkomulítið, um norðanvert landið og hiti kringum frostmark. Bjart með köflum sunnantil á landinu og hiti 2 til 6 stig.

Á fimmtudag:

Austlæg átt og víða rigning, en slydda eða snjókoma fyrir norðan. Hiti 2 til 10 stig, hlýjast syðst.

Á föstudag:

Útlit fyrir suðaustlæga átt og stöku skúrir, en þurrt að kalla á Norðausturlandi. Hiti breytist lítið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×