Jón Guðni meiddist í leik Hammarby og Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni á sunnudaginn og þurfti að draga sig út úr landsliðshópnum. Nú er komið í ljós að krossbandið er slitið. Jón Guðni er því á leið í aðgerð og svo tekur við löng endurhæfing.
Hinn 32 ára Jón Guðni kom til Hammarby frá Brann í Noregi í janúar síðastliðnum. Hann lék 32 leiki með Hammarby í öllum keppnum á tímabilinu og skoraði þrjú mörk.
Jón Guðni lék áður í Svíþjóð á árunum 2012-18, fyrst með Sundsvall og svo með Norrköping. Hann lék með Krasnodar í Rússlandi 2018-20. Jón Guðni hefur leikið átján landsleiki og skorað eitt mark.
Hammarby tapaði fyrir Norrköping, 3-1, um helgina. Hammarby er í 7. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar með 34 stig eftir 22 leiki.